Garl dagsins

Í dag sannaðist að stór karl með kúbein, vinnur á þremur mínútum verk sem tekur litla konu með skrúfjárn þrjár klukkustundir.

Þegar hendurnar á mér voru orðnar of blógnar til að ég héldi taki á skrúfjárninu, útséð um að nokkur iðnaðarmaður á höfuðborgarsvæðinu gæti fórnað þremur mínútum af tíma sínum og enginn þeirra duslimenna sem hafa lýst yfir ástríðufullri þrá sinni eftir að þjóna mér, á lausu, hringdi ég í Sigrúnu og bað hana að beita töfrum sínum til að fá að senda mér vélsmiðjustrák. Halda áfram að lesa

Þetta er allt að koma

Við erum búnar að fá „ráðstefnusalinn“ afhentan… vííí!

Fáum 25 manna hóp úr MH í heimsókn á mánudaginn svo ég reikna með að fyrirhuguð dansæfing með Hörpu og Sigrúnu (sem stóð til að yrði fjögurra tíma sessjón) verði í styttri kantinum.

Nú þegar búið er að fixa og trixa bloggið mitt svo ég get fengið ritræpu án þess að lenda í vandræðum, hef ég hvorki tíma né andríki til að skrifa.

En þessa dagana gerast góðir hlutir á viðunandi hraða og bráðum verður allt fullkomið.

Langar að flytja

Það virðist útilokað að fá vini og ættingja til að kóa með mér í örvæntingarfullri þrá minni eftir að selja íbúðina. Í dag fór ég til Sigrúnar og reyndi að fá hana til að samþykkja að flutningar gætu aukið hamingju mína til muna en hún er jafn viss um það og allir aðrir að skynsamlega leiðin sé sú að halda út í a.m.k. ár í viðbót.

Ég get ekki útskýrt óbeit mína á því að búa hér. Það er ekkert að íbúðinni. Lögun hennar fer í taugarnar á mér og herbergjaskipan er óhentug en ég hef áður búið í íbúðum sem voru ekki fullkomnar og liðið prýðilega þar. Ekki er það staðsetningin og eina truflunin frá nágrönnunum er barnagráturinn sem hefst stundvíslega kl 7:03 á hverjum morgni og öskrin í foreldrunum sem hefjast 4 mínútum síðar. Þetta morgunritúal þeirra tekur ekki nema um 7 mínútur í allt og það er alls ekki þess vegna sem ég vil flytja. Ég bara þoli ekki íbúðina og reyni að vera eins lítið heima og ég mögulega get. Verst að þótt ég hefði efni á að tapa hálfri eða heilli milljón á því að flytja strax, þá hef ég ekki efni á neinu sem mér finnst meira aðlaðandi.

Ég hafði nefnilega ágæta ástæðu fyrir því að kaupa einmitt þessa íbúð; það var gerlegt.

Ljóturöskun

Í gær gerðist pínu skrýtið.

Við Darri ákváðum að fara í þrjúbíó og á leiðinni út varð mér litið í spegil en fannst eitthvað undarlegt við andlitið á mér. Ég var smástund að átta mig á því en ég hafði gleymt að mála mig. Samt æptu augnpokarnir ekkert á mig. Ég var semsé í þessari óvenjulegu, eiginlega flippuðu stöðu, að vera ómáluð en samt ekkert ljót. Halda áfram að lesa

Eldsnemma að morgni

Klukkuna vantar 20 mínútur í 7 á laugardagsmorgni og ég er á leiðinni á Nesjavelli. Ekki skrýtið að fólk haldi að ég sé galin. Ekki nóg með að ég ætli að eyða laugardeginum, þessum eina í vikunni, við að skrúfa saman hommarör (hvað sem það nú er) heldur ætla ég líka að hætta lífi mínu með því að sitja í bíl með Sigrúnu. Ojæja einn laugardagur Mammoni til heiðurs og hinum fríða flokki karlmanna sem er vistaður þarna uppfrá til yndisauka er víst ekkert óyfirstíganlegt.

Ég er búin að komast að því hvað varð um ostinn minn. Þarf bara að yfirstíga eina hindrun svo ég komist til að sækja hann en það er ekki bara verkefni heldur raunveruleg hindrun. Samkvæmt Brian Tracy er hindrun víst öruggt merki þess að maður sé á vegi velgengninnar. Það er kannski bull í kallinum en ég ætla allavega að hafa það.

Daylight come and we wan’ go home

Úlnliðirnir á mér eru svo aumir að ég get ekki einu sinni pikkað á lyklaborðið án þess að verkja upp í olnboga, auk þess kvefuð og hef gengið á íbúfeni og norskum brjóstdropum síðustu daga. -Þetta var sjálfsvorkunn vikunnar, þá er það afgreitt.

Plastið er rafmagnað. Fyrstu dagana vorum við líkust stjörnuljósum en svo lagðist Sigrún í eðlisfræðirannsóknir og síðan hefur hún vökvað smiðjugólfið reglulega. Neistaflugið er minna, en þegar sjúkraliðinn mætir með slegið hár, rís það líkt og strákústur upp í loftið þegar hún lyftir böggunum. Halda áfram að lesa