Af menningarlífi mínu margháttuðu

Má vel vera að það sé lítt við hæfi að staupa sig á dönskum brjóstdropum og íbúfeni á Vínartónleikum en só bí itt, það hefði verið ennþá verra að hósta. Ég var búin að kaupa miðana og strákarnir vildu ekki nota þá svo ég dró Sigrúnu með mér.

Skemmti mér konunglega þrátt fyrir snýtupappír í annarri hendi og hóstamixtúru í hinni. Meðalaldur tónleikagesta var líklega 65 ára. Ég er nú dálítið hissa á því að sjá ekki fleira ungt fólk á svona léttum og skemmtilegum tónleikum sem gera í raun engar kröfur um að maður hafi „vit“ á tónlist til að njóta þeirra. Skil heldur ekki hverslags ómenning er eiginlega hlaupin í Darra. Haukur hefur aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um tónleika nema þá bara eitthvert dauðarokk og annan viðbjóð en við Darri vorum fastagestir í Salnum í fyrravetur og nú virðist hann algerlega búinn að missa áhugann. Frekar sorglegt finnst mér.

 

Björgunaraðgerð

Ég fór út til að grafa holu og áttaði mig þá á því að ég þyrfti að grafa fleira en hræið af kettinum. T.d. áform sem kosta mig meira strit en ánægju. Þegar allt kemur til alls var tilgangurinn sá að gera ekkert sem ég vildi ekki og allt sem ég vildi og undanfarna mánuði hefur það klikkað oftar en ég er sátt við. Halda áfram að lesa

Sprungið

Eitt vont gerir margt gott.
Margt vont ætti þá að gera eitt frábært.

Húsnæðið er sprungið. Það er vont mál sem kemur til af góðu. Þótt þrengslin séu til vandræða hefur það stóra kosti að fá stóra hópa. Það er miklu hagkvæmara fyrir mig en að vera bundinn yfir 6 eða 7 hræðum öll kvöld vikunnar. Reyndar er skemmtilegra að fá litla hópa en þar sem Bragi er hlaupin í mig reikna ég hvort sem er með að skemmta mér betur með honum en í vinnunni á næstunni. Halda áfram að lesa

Kraftur í safnið

Þessi vika hefur verið sannkallað sumarfrí. Kraftasafnið mitt er orðið svo stórt að það kemst vara fyrir í geymslunni.

Ég er að vísu búin að lóða helling og steypa kerti, mála rúnir, þvo og þrífa og sitja fundi út af jafn leiðinlegum hlutum og bókhaldi en ég er líka búin að hvíla mig, horfa á sjónvarpið, mæta í matarboð, halda matarboð, fara til spákonu, nota pinnahælana frá Ameríkunni tvö kvöld í röð! fá fréttir sem ég veit ekki hvort eru góðar eða slæmar, lenda í þriðju gráðu lögregluyfirheyrslu og setja á mig andlitsmaska. Svo er Málarinn búinn að setja upp vinnuljós í eldhúsinu og herða allar skúfur í eldhússinnréttingunni svo heimilið er óðum að verða fullkomið eins og allt annað í lífi mínu.

Í dag ætla ég að ráða krossgátu og drekka kappútsínó. Það er nefnilega hamingjan. Svo ætla ég í Grasagarðinn og sýna dindilhosunum Ingibjörgu og Sigrúnu forvitnilegasta skilti sem sett hefur verið upp á Íslandi -ever.

Já það er fjör.