Ekki góður galdur

Fór í morgunkaffi í vélsmiðjunni til að sverma fyrir veggjasmið. Eigandinn gaf lítið út á galdrafærni mína. Að vísu sótti maður um vinnu á mánudaginn en það reyndist vera vesælingur sem ekkert er hægt að nota. Ég verð líklega að útvega mér nautsblóð ef á að vera hægt að loka inn á klósettið fyrir opnunarteitið.

Við erum að fá múg og margmenni í heimsókn á morgun og þá verður salurinn að vera orðinn íveruhæfur. Í augnablikinu virðist það fremur fjarstæðukennt.

Garl dagsins

Í dag sannaðist að stór karl með kúbein, vinnur á þremur mínútum verk sem tekur litla konu með skrúfjárn þrjár klukkustundir.

Þegar hendurnar á mér voru orðnar of blógnar til að ég héldi taki á skrúfjárninu, útséð um að nokkur iðnaðarmaður á höfuðborgarsvæðinu gæti fórnað þremur mínútum af tíma sínum og enginn þeirra duslimenna sem hafa lýst yfir ástríðufullri þrá sinni eftir að þjóna mér, á lausu, hringdi ég í Sigrúnu og bað hana að beita töfrum sínum til að fá að senda mér vélsmiðjustrák. Halda áfram að lesa

Í fréttum er þetta helst

Í fréttum er þetta helst:

Tölvan mín er veik. Með einhvern ógeðsvírus og þar sem tölvulæknirinn minn hefur, sökum félagslegara aðstæðna, takmarkað leyfi til fjarveru frá heimili sínu hef ég setið uppi með sjúklinginn alls ónothæfan síðan á mánudagskvöld.

Síðustu helgi smíðaði ég 40 vatnsnema og setti í eina þvottavél. Afleiðingarnar eru ástand. Næstu helgi verð ég á Nesjavöllum. Spurning hvort ég eigi ekki bara að panta Heiðar og co strax? Halda áfram að lesa

Hjálpsamur yfirmaður

Eigandinn setti upp geiflu sem var einhversstaðar miðja vegu milli glotts og kátínubross þegar við hittumst á Nesjavöllum í gær. Kvaðst hafa lesið bloggið mitt og bauðst til að útvega mér nokkur símanúmer.

Ég veit nú ekki alveg hvort maður á að stóla á árangur af því. Eða hvernig hljómar þetta:
-Sæll Gísli/Eiríkur/Helgi, Eva heiti ég. Yfirmaður þinn las á blogginu mínu að ég væri að leita að fallegum hálfvita og gaf mér símanúmerið þitt. Ég var svona að velta fyrir mér hvort þú hefðir áhuga á að mæta í viðtal.

Eldsnemma að morgni

Klukkuna vantar 20 mínútur í 7 á laugardagsmorgni og ég er á leiðinni á Nesjavelli. Ekki skrýtið að fólk haldi að ég sé galin. Ekki nóg með að ég ætli að eyða laugardeginum, þessum eina í vikunni, við að skrúfa saman hommarör (hvað sem það nú er) heldur ætla ég líka að hætta lífi mínu með því að sitja í bíl með Sigrúnu. Ojæja einn laugardagur Mammoni til heiðurs og hinum fríða flokki karlmanna sem er vistaður þarna uppfrá til yndisauka er víst ekkert óyfirstíganlegt.

Ég er búin að komast að því hvað varð um ostinn minn. Þarf bara að yfirstíga eina hindrun svo ég komist til að sækja hann en það er ekki bara verkefni heldur raunveruleg hindrun. Samkvæmt Brian Tracy er hindrun víst öruggt merki þess að maður sé á vegi velgengninnar. Það er kannski bull í kallinum en ég ætla allavega að hafa það.

Daylight come and we wan’ go home

Úlnliðirnir á mér eru svo aumir að ég get ekki einu sinni pikkað á lyklaborðið án þess að verkja upp í olnboga, auk þess kvefuð og hef gengið á íbúfeni og norskum brjóstdropum síðustu daga. -Þetta var sjálfsvorkunn vikunnar, þá er það afgreitt.

Plastið er rafmagnað. Fyrstu dagana vorum við líkust stjörnuljósum en svo lagðist Sigrún í eðlisfræðirannsóknir og síðan hefur hún vökvað smiðjugólfið reglulega. Neistaflugið er minna, en þegar sjúkraliðinn mætir með slegið hár, rís það líkt og strákústur upp í loftið þegar hún lyftir böggunum. Halda áfram að lesa