Rauður eða bleikur? (FB leikur)

Rauður kjóll. Bleik rúmföt. Rautt hár, bleikar geirvörtur (aarrrg… ekki öfugt)

Ég vil gjarnan hafa mjúka og dempaða liti í umhverfi mínu en klæðist yfirleitt sterkum litum. Líklega lít ég á útlit mitt sem tjáningu á karakter en umhverfi sem tjáningu á þörfum. Vertu bleikur við mig, sérstaklega ef þú vilt að ég fari úr rauða kjólnum.

Ætli ég þurfi að yfirstíga tepruskapinn?

Það er hægt að halda uppi símasamræðum við móður mína, allavega að vissu marki, á meðan maður reynir að lifa sig inn í Trainspotting. Rankaði við mér þegar hún tók sér í munn orðið endaþarmsmök. Ég er bara svo mikil tepra að mér hálfbregður alltaf þegar móðir mín byrjar að ræða sódómí og annað á þeirri línu. Halda áfram að lesa

Lena farin

Þá er hún farin. Ég lít á það sem morðtilraun.

Jódís fór út með sömu vél og bað mig þess lengstra orða að sleppa öllum fárviðrisgöldrum. Hmprff… það var hvort sem er afleit hugmynd og ég efast um að ég hefði náð neinu áhrifaríkara en slyddu.

Fullt tungl um helgina og upp úr því geta tiltekin dusilmenni vænst þess að eitthvað fari að visna undan þeim. Ég er nefnilega miklu jákvæðari gagnvart endurgjaldsgöldrum en því að möndla við náttúruna og hef enga trú á jafnvel dánarvottorð dugi til þess að þetta pakk læri að skammast sín.

Sundlaugarsaga

Þessi saga er tileinkuð félagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar

Barnið kastaði sér skríkjandi út í djúpu laugina. Ekki með kút og ekki einu sinni kork og ekkert benti til þess að það kynni að synda. Barnið sökk en skaut upp aftur, virtist skemmta sér prýðilega og ekki gera sér minnstu grein fyrir hættunni. Halda áfram að lesa

Góður dagur

Mikið var þetta góður dagur.

Við fórum í Austurbæ og sáum Annie og svo komu afi Bjarni og amma Hanna í mat til okkar. Ég bjó til lasagne með spínati og möndlum sem uppistöðu og eftirrétturinn var mjög fljótlegur heimatilbúinn ís.

Ég er ákveðin í því að halda matarboð reglulega á þessu ári. Ég hef svo mikla ánægju af því að fá fólk í mat og matarboð útheimtir hvorki að maður þurfi að standa í stórþvotti sökum reykmengunar daginn eftir, né að maður missi svefn. Það er nákvæmlega ekkert vesen ef maður hefur lítinn tíma, mín reynsla er allavega sú að fólk kunni almennt vel að meta ofnrétti, pottrétti og annað sem hægt er að undirbúa með fyrirvara og það þarf heldur alls ekki að vera dýrt að bjóða fólki í mat.

Ruglus

Ég hef heldur betur ruglast í kvartilaskiptunum. Eins gott að ég galdraði um áramótin. Var mér enganveginn meðvituð um að einmitt á gamlársdag var nýtt tungl, það fyrsta eftir vetrarsólstöður. Ég galdraði allavega helling af hamingju svo þetta hlýtur að verða gott ár.

Næsti verulega magnaði galdradagur er semsagt ekki í dag heldur föstudagurinn 13. en þá um nóttina er einnig fyrsta fullt tungl í nýju ári. Ég endurtek þá bara lækningagaldrara sem ég framdi síðustu nótt, þeir verða bara magnaðri fyrir vikið.