Urr

Ég kemst ekki inn á bloggsíðuna mína (þ.e.a.s. síðuna sem birtist a blogspot.) Aðrar blogspot síður koma upp en mín er bara hvít. Fékk andartak hland fyrir hjartað því ég á ekki afrit af þessum textum og ég hugsa að ég sæi eftir nokkrum þeirra ef kæmi í ljós að síðan væri bara horfin. Ég get allavega afritað þá ennþá, það kom í ljós þegar ég reyndi að komast inn á ritsíðuna (blogger) eða hvað sem það heitir á íslensku).

Ég um mig til minnar listsköpunar

Það er nú mannsins eðli að álíta sjálfan sig áhugaverðusta einstakling á jarðríki. Flestir hafa mikla þörf fyrir að tala um sjálfa sig (annars þrifust ekki allar þessar bloggsíður) og sumir eiga svolítið erfitt með að átta sig á því að allir hinir hafa þessa sömu þörf fyrir að tjá sig um sjálfa sig. Mikilvægasta orð í heimi er „ég“. Halda áfram að lesa

Gerningar

Gerast nú dröm mikil í þeim þáttum sápuóperu tilveru minnar sem eigi er birtingarhæf í bloggheimum. Hef þegar varið 30 mínútum af þessum morgni í að reyna að leiða möppudýrum kerfisins fyrir sjónir þau voðaverk sem eru í uppsiglingu en spádómsgáfa mín er að engu höfð.

Ég hef aldrei gert alvarlega tilraun til veðurgaldurs en mun nú beita mér af öllu afli fyrir því að aðfaranótt 10. janúar gangi fellibylur yfir Keflavíkurflugvöll.

Niðurstaðan varð magadans

Urr.
Ég var að reyna að skrá mig á námskeið hjá Kramhúsinu en tekst ekki að senda skráninguna og enginn svarar síma.

Afródansar eru kenndir á laugardögum sem hentar mér enganveginn, svo ég skráði mig í magadans. Held reyndar að það sé ekki fljótleg leið til að auka úthald en öll hreyfing er betri en engin og þetta hlýtur þó að vera aðeins erfiðara en jóga. Auk þess er minni hætta á að mér finnist magadans leiðinlegur og markmið númer eitt er nú einmitt að leiðrétta þá skoðun að ég sé bara ekki þessi týpa sem hoppar. Kannski árangursríkara að velja eitthvað sem samræmist því þótt það skili ekki tígrisdýrslungum fyrir páska.

Reyndar kostar þetta aðeins meira en ég hafði hugsað mér að setja í viðhorfssnúninginn en ég hef náttúrulega allra síst efni á því að eyðileggja dæluna með notkunarleysi.

Kannski Afró

Er búin að skoða netsíður með námskeiðum. Það hlýtur bara að vera til einhver leikur eða íþrótt sem ég get haft gaman af. Það væru ekki til svona margar íþróttir ef líkamleg áreynsla væri í eðli sínu leiðinleg svo það hljóta að vera mín viðhorf sem eru eitthvað gölluð.

Ekkert af því sem er í boði vekur áhuga minn enda finnst mér fátt ógeðslegra en að finna svitatauma renna niður með síðunum (set það í sama ógeðsflokk og að þrífa öskubakka eða ælu.)

Ég er samt ákveðin í að finna eitthvað sem ég hef gaman af, svo þetta verði ekki bara íþyngjandi þriggja mánaða skylduræknisátak og svo ekki söguna meir. Hugsa að lendingin verði Afródans. Hann er allavega fyndinn.

Narnía

narniaNarnía stóð alveg undir væntingum. Ekki stórvirki kannski en alveg ágætis fjölskylduafþreying.

Mér fannst hvíta nornin frábær, jólasveinninn talsvert meira sannfærandi en kókakólaskrípið og sleppti því alveg að segja hohohó, hugmyndin um börnin sem holdgervinga frumefnanna kemst vel til skila og bardagaatriðin voru ekki óþolandi löng.

Drengurinn sem lék Edmund stendur upp úr af systkinunum sem „svipbrigðaleikari“ þótt þau hafi öll komist mjög vel frá sínum hlutverkum. Það er kannski bara af því að hans hlutverk gerir mestar kröfur að því leyti að hann þarf oft að sýna hugsanir með svipbrigðum fremur en með að koma þeim til skila með orðum, raddblæ og líkamstjáningu. Ég spái því allavega að honum verði boðin töluvert krefjandi hlutverk í framtíðinni.