Skýrsla

Klukkan að ganga þrjú og ég ennþá vakandi. Öðruvísi mér áður brá.

-Ég fæ íbúðina mína afhenta í fyrramálið en er alls ekki viss um að ég komist í að flytja fyrr en um helgina.
-Sem er eiginlega ekki frábært því Elías kemur um helgina og ég fer út þann 9. svo við náum varla að hittast almennilega ef ég þarf að standa í flutningum allan sunnudaginn.
-Tukthússlimurinn losnar úr haldi á miðnætti á morgun.
-Búðin mín verður líklega lokuð á afmælisdaginn sinn 2. ágúst, af pólitískum ástæðum.

Prúðmannleg mótmæli

-Úff þetta hljóta að vera slöppustu mótmæli Íslandssögunnar.
-You wish! Ég hef verið viðstaddur mörg mótmæli sem voru bæði fámennari og slappari.
-Nú? hvaða mótmæli voru það?
-Mótmæli sem enginn man eftir, auðvitað.
-Og enginn vissi einu sinni af.
-Er það ekki nákvæmlega þetta sem er verið að hvetja okkur til að gera, mótmæla þannig að það trufli engan?
-Ein svona máttlaus aðgerð er alveg nóg fyrir mig, næst kem ég með litboltabyssuna mína.
-Mér líður eins og herstöðvarandstæðingi.

Að lokum safnaðist hópurinn saman við ruslagáminn og gólaði á hann. Það er jafn líklegt til árangurs.

 

Kveðja frá tukhússlimnum

Tengdadóttir mín tukthússlimurinn fékk engan frest til að ákveða hvað hún vildi gera. Henni var birtur dómurinn og þurfti samstundis að ákveða hvort hún ætlaði að borga sektina eða sitja hana af sér (á launum). Ekki svo að skilja að það hafi nokkurntíma hvarflað að henni að borga hundraðkall í sekt fyrir borgaralega óhlýðni en mér fannst ótrúlegt að það væri bara talið gott og gilt að stilla einhverjum svona upp við vegg, án nokkurs réttar til áfrýjunar eða umþóttunar. Ég er nú búin að líta aðeins yfir lögin og sé ekki betur en að í þessu ríki frelsis og réttlætis sé fullkomlega löglegt að fara svona með pólitíska fanga.

Byltingin fékk leyfi til að heimsækja hana í gær og hún lætur vel af sér. Hún er á Skólavörðustígnum, ein kvenna og fær ekkert samneyti að hafa við hina fangana en hún hefur nóg lesefni og ver miklum tíma til yogaæfinga. Hún biður að heilsa öllum vinum sínum á Íslandi.

Ekki volgt, blautt og guðdómlegt -ekki enn amk

Ég lofaði volgu blautbloggi ef ég fengi rök en eitthvað hefur gredda lesenda legið í láginni.

Mikið er ég farin að hlakka til að komast í frí. Alexander er í síðara sumarfríinu sínu núna svo ég er alveg bundin yfir búðinni. Ég er orðin mjög þreytt, ekki af því að sé svo brjálað að gera heldur af tilbreytingarleysi. Það er ekki hollt að búa á vinnustaðnum.

En þetta stendur til bóta. Ég flyt um mánaðamótin og fer svo út að hitta Pysjuna mína í ágúst. Eða Lundann minn öllu heldur. Hann er, held ég, skriðinn úr holunni. Þegar ég kem aftur verður Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni fluttur til fyrirheitna landsins og Byltingin að lesa anarkistabókmenntir á dagpeningum í boði ríkisins. Miðað við hans lífsstíl mun hann snúa þaðan auðugur maður og giskið bara á hvaða hreyfingu hann mun gefa dagpeningana sína. Múhahahaha!