Ljúflingur: Má ég spyrja þig að einu?
Eva: Prófaðu bara, það versta sem getur gerst er að ég svari ekki.
-Nei, þú verður að lofa að svara.
-Áður en ég heyri spurninguna?
-Já, bara í þetta eina sinn. Ég hef aldrei beðið þig um það áður.
Ég hugsaði mig aðeins um og fannst bónin sanngjörn. Þegar sá sem elskar mann biður mann að uppfylla aðeins eina ósk þá á maður að láta það eftir honum.
-Allt í lagi, sagði ég, ég skal svara einni spurningu.
–Ertu ekki búin að sofa hjá honum? Typpi í píku á ég við.
-Áður en ég svara þessu ætla ég að vekja athygli þína á því að þú baðst mig bara að svara en ekki að segja þér satt.
-Svaraðu bara, ég þekki muninn.
-Kannski er líka rétt að ég bendi þér á að þetta er röng spurning.
-Röng spurning. Þú átt við þessa klisju þína að ef þú svæfir hjá honum myndirðu sennilega ekki segja mér frá því. Sko! Í fyrsta lagi ertu búin að lofa að svara einni spurningu -og ég veit hvenær þú lýgur. Í öðru lagi þá er það kjaftæði að þú myndir ekki segja mér frá því, þú hefur oft og ég held oftar en ekki sagt mér hverjum þú sefur hjá.
-Eins og ég segi þá er þetta röng spurning. Þú sagðir „ertu ekki búin að sofa hjá honum“ og ég er ekki vön að ræða við þig hverjum ég sef EKKI hjá. Auk þess gæti verið að ég sé byrjuð að sofa hjá honum en alls ekki búin að fá nóg af því.
-Hahh! Þú ert ekki byrjuð á því, ég veit það.
-Nú, hvað sannfærir þig um það?
-Þig langar það alveg, ég veit það en þú hefur ekki komist í vax nýlega. Þú ert áreiðanlega loðin upp á maga og þá þolirðu ekki að koma nálægt karlmanni.
-Ég þoli það alveg. Hef oft gert það. Ég vil það síður en ég þoli það alveg. Hvað veistu nema mig hafi langað nógu mikið til að gera það með strákústinn í klofinu?
-Hahh! Got you! Ég var alls ekki viss en ég þekki þig nógu vel til að vita að ef þú værir búin að sofa hjá honum hefðirðu spurt hvers vegna ég væri svona viss um að þú hefðir ekki komist í vax. Sem segir mér að þú hefur af einhverjum ástæðum ekki farið í vax. Sem sannfærir mig aftur um að þú hefur ekki verið með honum. Það getur vel verið að þú þolir það alveg en þú myndir samt ekki vera með einhverjum nýjum nema fara í vax.
-Viltu enn að ég svari spurningunni eða ertu sannfærður?
-Svaraðu.
-Ég minni þig á að ég hef ekki lofað að segja satt.
-Gott og vel.
-Svarið er nei. Ég er ekki BÚIN að sofa hjá honum.