Gremj!

Helvíti að eiga frídag á sólstrandardegi og geta ekki verið úti. Mig svíður í fótleggi, axlir og andlit en tók ekki eftir því fyrr en ég fór inn.

Mig langar í félagsskap en allir sem ég þekki eru:
a) úti í sólinni, af skiljanlegum ástæðum
b) í útlöndum
c) úti á landi
d) ástfangnir
e) þunnir

Gerði tilraun til að opna búðina fyrst ég gat ekki verið úti lengur hvort sem er. Endalaust ráp túrista inn og út sem merkir að ég hef ekki frið til að lesa eða skrifa en salan er of lítil til að ég tími að eyða fríinu mínu svona. Ætla hér með að loka aftur og hanga frekar með bókina mína inni á kaffihúsi.

Sumar

Á hvílíkum dögum reynir maður að sameina vinnu og sumarfrí. Sitja í hlírakjól fyrir utan búðina og pakka rúnasteinum eða lesa bók. Stundum kemur Sjoppmundur hlaupandi yfir götuna með ís handa mér. Það finnst mér fallegt af honum. Ís og hlírakjóll samræmast kannski ekki ímynd nornarinnar en mér er alveg sama því ég hef tekið örlítinn lit síðustu daga og það þykir mér nú skemmtilegt. Halda áfram að lesa

Ellefta geðorðið

Hér er skemmtilegur leikur fyrir þá sem hafa gaman af að koma fólki í uppnám. Hann er mjög einfaldur og krefst hvorki innsæis, gáfna, þekkingar né leiklistarhæfileika. Það eina sem þú þarft að gera er að segja eina setningu sem byrjar á „ég trúi nú bara ekki á…“ og svo eitt af geðbólguorðunum 10. Engu máli skiptir hvort þú segir þetta afsakandi, í trúnaðartón, blátt áfram eða frekjulega eða hvort augnaráðið er yfirvegað, ósvífið, þreytulegt eða geislandi af djúpri visku; viðmælandinn MUN sleppa sér í geðbólgu og reyna að koma fyrir þig vitinu með misgáfulegum fyrirlestrum.

Ég hef prófað ýmis orð og komist að raun um að þau vekja mishörð viðbrögð. Það þykir t.d. skrýtið og jafnvel ótrúlegt að trúa ekki á Jesús en það er þó sjaldnast álitið merki um að ég sé mjög geðveik eða jafnvel hættuleg. Það sleppur líka að trúa ekki á andaglas en Almáttugur, Óðinn og allir djöflarnir forði þeim sem trúir ekki á anda hinna framliðnu. Reynsla mín hingað til er sú að geðbólguorðin séu þessi 10:

-Gvuð
-Fyrri líf
-Eftirlíf
-Skyggnigáfu
-Anda hinna framliðnu
-Meðfæddan kærleika mannsins
-Yfirnáttúru
-Dularöfl
-Árulestur
-Alheimsljósið

Í dag fann ég eitt geðbólguorð til viðbótar og gott ef það er ekki áhrifameira en öll hin samanlagt. Ég prófaði að segja viðskiptavini að ég tryði ekki á orku. Það er reyndar haugalygi, ég trúi alveg á orku en ég trúi því ekki að það sé hægt að „jafna orkuflæði líkamans“ (hvað sem það nú merkir) með því að bera á sér stein eða annan grip.

Ég mun aldrei aftur leggja það á lítið barn að hafa yfir jafn magnaða farartálmaþulu í áheyrn foreldranna en ég er allavega búin að finna ráð til að tryggja mér félagsskap um alla framtíð.

Á morgun ætla ég að prófa að segja „ég trúi nú bara ekki á vísindin.“

 

Mig vantar orð

-Ég bið að heilsa litlu systkinum mínum, sagði pilturinn, þegar var komið á hreint að hann gæti ekki komið í heimsókn með svo stuttum fyrirvara, þar sem móðir jörð þyrfti að leggja sig. (Það er náttúrulega ekki hægt að leggja sig með föður og son í hrókasamræðum í eldhúsinu.)
Halda áfram að lesa

Synd mannsins í heiminum

-Losti er bara rangnefni. Það fer í taugarnar á mér þegar fólk tengir Kenndina við losta af því að orðið sjálft degraderar hana. Ég hef ekkert á móti losta en þetta er bara eitthvað allt annað. Ást kannski eða leikur að trausti. Allavega ekki losti. Kannski blæti?
-Nei, enn síður blæti. Blæti er það sem maður blótar eða dýrkar. Halda áfram að lesa

Eeeeeða ekki

Victoria-Beckham

Af og til fæ ég þá grillu í höfuðið að ég yrði hamingjusamari ef mér tækist að safna brjóstum. Þegar það gengur ekki upp dettur mér stundum í hug að safna fyrir brjóstum. Ég held að Viktoría sé með sama syndromið. Sem betur fer er ég ekki eins rík og hún.