Sumar

Á hvílíkum dögum reynir maður að sameina vinnu og sumarfrí. Sitja í hlírakjól fyrir utan búðina og pakka rúnasteinum eða lesa bók. Stundum kemur Sjoppmundur hlaupandi yfir götuna með ís handa mér. Það finnst mér fallegt af honum. Ís og hlírakjóll samræmast kannski ekki ímynd nornarinnar en mér er alveg sama því ég hef tekið örlítinn lit síðustu daga og það þykir mér nú skemmtilegt.

Stundum setst ég út með hvítvínsglas. Það er í lagi fyrst ég ég þarf ekki að aka heim. Auk þess fæ ég sérstakt kikk út úr því að drekka í vinnunni og vita að enginn getur ‘rekt’ mig. Ekki svo að skilja að ég hafi nokkurntíma fundið hjá mér sérstaka þörf fyrir að drekka í vinnunni en þegar þessi möguleiki opnaðist bætti ég honum á skrána yfir 50 ástæður fyrir því að ég ætla aldrei aftur að vinna hjá öðrum en sjálfri mér. Lærlingurinn er of ungur til að sé verjandi að bjóða honum hvítvín en við Heiða gerðum þetta stöku sinnum í fyrravor. Skiptum kannski einum litlum bjór í tvo tebolla og vorum allt að 4 tíma að gúlla honum í okkur. Strangt til tekið má segja að við Heiða séum gamlir drykkjufélagar. Það þykir mér nú skemmtilegt.

Stundum koma fræðimennirnir í hverfinu og drekka með mér hvítvín og spjalla. Þeir tala alvöru íslensku og segja m.a.s. alls konar gáfulegt á henni. Samræðurnar snúast um pólitík, heimspeki, trúarbrögð og sögu. París Hilton berst ekki í tal en Spánverjavígin og Jón Indíafari skipa því stærri sess og það þykir mér nú öllu skemmtilegra umræðuefni.

Stundum sest hann líka hjá mér fyrir utan búðina, Maðurinn sem teiknar hugaróra á hafsbotni. Það finnst mér líka skemmtilegt. Að eigin sögn er hann fátækur listamaður og eignalaus eymingi og einhverntíma hefði ég orðið skotin í honum út á það en mér finnst það ekki eins sjarmerandi og áður. Hann er samt sjarmör. Í gær spurði ég hann hvort hann gerði greinarmun á losta og blæti.

-Já það er munur á því þótt það geti farið saman, sagði Maðurinn sem teiknar hugaróra á hafsbotni. Ég er t.d. haldinn pennablæti en það er ekki kynferðislegt. Verð bara frávita af hrifningu þegar ég sé fallega penna og get ekki hætt að hugsa um þá.

Hann sagðist hafa lesið eldgamla bók þar sem ‘fetish’ væri þýtt sem ‘táknsýki’. Kannski er flækja fíngerðra þráða milli póstmódernisma, táknsýki, blætis og munalosta. Eða kannski er þetta allt einn stór fetisgöndull. Einu sinni hafði ég málfræðikennara sem ég er viss um að var haldinn hljóðvarpablæti. Maður gat séð hvernig varir hennar fylltust af blóði og hún átti bágt með að kyssa ekki út í loftið þegar hún talaði um hljóðvörp. Ég veit ekki hvort það var losti en ástríða var það, svo mikið er víst.

Maðurinn sem teiknar hugaróra á hafsbotni borðaði með mér steinbítskinnar í hádeginu. Hann er með skegg en þrátt fyrir það hvarflaði að mér að spyrja hvort hann vildi sofa hjá mér. Ég gerði það samt ekki. Maður þarf ekki endilega að ríða öllu sem manni finnst skemmtilegt. Auk þess er ég ekkert viss um að ríðiblæti (eða heitir það kannski samræðistáknsýki) sé algengt eða að hann myndi skilja það þótt ég reyndi að útskýra það fyrir honum. Ég held nefnilega að oftast ríði fólk bara af einskrærri greddu. Sem reyndar er, út af fyrir sig, ákaflega skemmtilegt líka.