Hér er skemmtilegur leikur fyrir þá sem hafa gaman af að koma fólki í uppnám. Hann er mjög einfaldur og krefst hvorki innsæis, gáfna, þekkingar né leiklistarhæfileika. Það eina sem þú þarft að gera er að segja eina setningu sem byrjar á „ég trúi nú bara ekki á…“ og svo eitt af geðbólguorðunum 10. Engu máli skiptir hvort þú segir þetta afsakandi, í trúnaðartón, blátt áfram eða frekjulega eða hvort augnaráðið er yfirvegað, ósvífið, þreytulegt eða geislandi af djúpri visku; viðmælandinn MUN sleppa sér í geðbólgu og reyna að koma fyrir þig vitinu með misgáfulegum fyrirlestrum.
Ég hef prófað ýmis orð og komist að raun um að þau vekja mishörð viðbrögð. Það þykir t.d. skrýtið og jafnvel ótrúlegt að trúa ekki á Jesús en það er þó sjaldnast álitið merki um að ég sé mjög geðveik eða jafnvel hættuleg. Það sleppur líka að trúa ekki á andaglas en Almáttugur, Óðinn og allir djöflarnir forði þeim sem trúir ekki á anda hinna framliðnu. Reynsla mín hingað til er sú að geðbólguorðin séu þessi 10:
-Gvuð
-Fyrri líf
-Eftirlíf
-Skyggnigáfu
-Anda hinna framliðnu
-Meðfæddan kærleika mannsins
-Yfirnáttúru
-Dularöfl
-Árulestur
-Alheimsljósið
Í dag fann ég eitt geðbólguorð til viðbótar og gott ef það er ekki áhrifameira en öll hin samanlagt. Ég prófaði að segja viðskiptavini að ég tryði ekki á orku. Það er reyndar haugalygi, ég trúi alveg á orku en ég trúi því ekki að það sé hægt að „jafna orkuflæði líkamans“ (hvað sem það nú merkir) með því að bera á sér stein eða annan grip.
Ég mun aldrei aftur leggja það á lítið barn að hafa yfir jafn magnaða farartálmaþulu í áheyrn foreldranna en ég er allavega búin að finna ráð til að tryggja mér félagsskap um alla framtíð.
Á morgun ætla ég að prófa að segja „ég trúi nú bara ekki á vísindin.“
———————————–
ég trúi nú bara ekki á ástina
Posted by: baun | 14.07.2007 | 9:54:49
———————————–
Ég trúi ekki á ástina heldur
Posted by: Snúður | 14.07.2007 | 13:13:52
———————————–
Það sleppur. Prófið að segja að þið trúið ekki á kærleika mannsins.
Posted by: Eva | 14.07.2007 | 15:15:12
———————————–
… já ég trúi á vísindi, ást, heimsku mannfólksins og jafnvel líka fullnæingu kvenna . Er samt ekki viss um neitt… en í því ligur trúin bíst ég við. :
Posted by: Dreingur | 15.07.2007 | 23:53:54
———————————–
Vísindin krefjast ekki trúar, bara þess að maður spyrji gagnrýnna spurninga og efist svo um svarið á eftir.
Posted by: Rúnar H. Haralds | 21.07.2007 | 0:20:09