Þú átt það skilið

-Af hverju pantarðu ekki bara flugfar og drífur þig? spurði hún.
-Vegna þess að ég á ekki fyrir ferðinni, svaraði ég.
-Þú átt kort.
-Já og ef þyrfti ekki að borga það sem maður tekur út af því myndi ég eflaust nota það.
-Kommon, þig dauðlangar. Þú galdrar bara pening þegar þú kemur heim.

Ég sótti ekki kennaraprikið en bara af því að ég á ekkert kennaraprik. Setti hins vegar í brýn og sleppti fordæðunni lausri:
-Jamm! Rosalega einfalt. Hurrumignú góan og hlustaðu vel því trúðu mér þú þarft á því að halda: Galdur er ekki skyndilausn fyrir fólk sem hefur ekki stjórn á lífi sínu. Galdur er aðferð til að efla sjálfum sér viljastyrk, skynsemi, útsjónarsemi, hugrekki, þrautseigju, sköpunargleði eða hvað það nú annars er sem heilbrigð skynsemi segir að gæti hjálpað manni hverju sinni. Og það er rétt að þegar maður temur sér að beita huganum á þennan hátt fara undarlegir hlutir að gerast. Heppilegar tilviljanir elta mann uppi. Nýjar dyr opnast, eða kannski tekur maður bara frekar eftir þeim, ég bara veit ekki almennilega. Það sem ég veit hinsvegar er að það að koma sér í vandræði með heimskulegum ákvörðunum og ætlast til þess að hlutirnir reddist af sjálfu sér, það er ekki galdur heldur trú og þú veist mæta vel mína afstöðu til trúar.

-Þú um það, sagði hún. Mér finnst bara að þú eigir skilið að fara.

Á ég það skilið? Já áreiðanlega. En ég á líka skilið að vera hamingjusöm og hér einföld uppskrift að óhamingju í boði hússins:
Gerðu það sem þér finnst þú eiga skilið en ekki það sem þú veist að þú hefur efni á.

Langar mig í þessa ferð? Jájá. Mig langar bara alveg. En mig langaði líka að eignast þetta fallega heimili sem mig hefur dreymt um í mörg ár og nú er það orðið að veruleika, fyrir röð einkennilegra tilviljana sem þó hefðu aldrei átt sér stað ef ég hefði alltaf hlaupið á eftir öllum mínum hjartans duttlungum. Sjálfsagt á ég alveg skilið að fara í þessa ferð en það sem ég á ekki skilið er að klúðra fjármálunum mínum. Ég á alveg skilið að fara út núna en ég á ennþá meira skilið að bíða aðeins og hafa góða ástæðu til að vera fullkomlega áhyggjulaus þegar að því kemur. Það skiptir nefnilega engu máli hversu góð skil maður kann á hvítagaldri, svartagaldri eða röndótta galdri; maður nær engum árangri með því æða áfram í stjórnleysi og treysta á einhver dularöfl. Galdurinn virkar ekki fyrr en maður lærir hafa pínulítinn hemil á sjálfum sér.

 

One thought on “Þú átt það skilið

  1. ———————————————

    Ég stend í miklu sálarstríði þessa dagana. Langar að kaupa jólaferð sem ég hef í raun ekki efni á.

    Posted by: Unnur María | 13.07.2007 | 17:54:54

    ———————————————

    Heyr, heyr. Alveg er ég þér hjartanlega sammála. Ég er allavega svoddan gunga að ég þori ekki annað en lifa eftir þessari kenningu til þess að halda minni sálarró. Í mínum garði vaxa nefnilega engin peningatré sem tína má seðla af til að borga með greiðslukortareikninginn. -Stundum getur maður bara það sem mann langar til og stundum ekki. Er ekki mesta hamingjan fólgin í því.
    Kær kveðja,

    Posted by: Ragna | 13.07.2007 | 22:27:14

Lokað er á athugasemdir.