Synd mannsins í heiminum

-Losti er bara rangnefni. Það fer í taugarnar á mér þegar fólk tengir Kenndina við losta af því að orðið sjálft degraderar hana. Ég hef ekkert á móti losta en þetta er bara eitthvað allt annað. Ást kannski eða leikur að trausti. Allavega ekki losti. Kannski blæti?
-Nei, enn síður blæti. Blæti er það sem maður blótar eða dýrkar.
-En er þetta ekki dálítið skylt? Hvaða orð notaðir þú aftur þegar þú lýstir því fyrst? Transfusigression, var það ekki? Svo þykist þú ekki vera nörd! Transfusigression, er það ekki nánast trúarleg upplifun?
-Jújú, á sama hátt og sinfóníutónleikar eða fullnæging eða Skógarfoss. Einhverskonar lotning. Eins og að standa agndofa frammi fyrir Undrinu. En það er ekki dýrkun, ekki blót. Eða kannski jú, kannski er það blæti. Kannski er ég bara orðin svo hundleið á tilraunum manna til að troða stórfenglegri upplifun inn í trúarkerfi, kynlífskerfi eða einhverja aðra kassa að orðið sjálft þvælist fyrir mér. Kannski er það einmitt blæti.
-Af hverju þarf það endilega að heita eitthvað?
-Af því að fólk hefur þörf fyrir að skýra og skilgreina. Skýra með því að nefna. Eða kannski með því að skíra með einföldu í, vígja tiltekna hegðun inn í samfélag þess afbrigðilega, leggja yfir hana einhverskonar blessun. Þessi tiltekna kennd er þá komin inn í flokkunarkerfið.
-Einu sinni sagðir þú að synd mannsins í heiminum væri smátt og smátt að færast frá kynlífinu yfir á átið. Ég held að það sé rangt hjá þér. Kleinuhringir verða aldrei mjög dónalegir nema kannski í huga anorexíusjúklings. Ég held að synd mannsins í heiminum sé sú sama og hún hefur alltaf verið; að vilja ekki láta setja sig í kassa.
-Drengur maður! Það er rétt hjá þér. Þú ert svo vitur.
-Ég veit það nú ekki, svaraði hann. Svo lagði hann lófann blíðlega á hálsinn á mér og brosti eins og sá sem veit það nú samt alveg.