Þegar amma lét Sjálfstæðisflokkinn mála gangstéttarbrún

Theódór Norðkvist birtir á vefbók sinni, mynd af löggubíl sem lagt er við gula línu og spyr hvort löggan megi brjóta lög.

Ég, sem er fljót að trúa öllu illu upp á lögguna, dæmdi þá sem voru á þessum bíl óðar seka um lögbrot. Óskar Thorkelsson bendir hinsvegar á að í reglugerð með umferðarlögunum er talað um akbraut og þarna er ekki akbraut heldur bensínstöðvarplan. Þessi löggugrey brutu semsagt ekki lög með að leggja þarna.

Í tenglsum við þetta rifjaðist upp fyrir mér gömul saga úr fjölskyldunni. Halda áfram að lesa

Fyrirgefið að þið skulið hafa pínt mig

Nokkrum árum eftir þennan atburð stóð ég sjálfa mig að því að gera lítið úr eineltismáli.

Strákur í bekknum mínum var settur hjá og þegar verst lét áreittur. Hann var klaufi í samskiptum eins og flest eineltisbörn og reyndi stundum að komast inn í hópinn með því að spila sig töffara en það fór honum illa. Hann sætti ekki ofbeldi en engum duldist að hann var neðstur í goggunarröðinni og honum var sjaldan boðið að vera með í neinu.

Einhverju sinni reyndi einn kennarinn að gera okkur ljóst að við værum vond við hann og það að ástæðulausu, Ég sagði honum að stráksi væri vanhæfur í samskiptum og að hann væri að gera allt of mikið úr þessu. Ég hafði árið áður verið í bekk með strák sem var beinlínis píndur. Svo alvarlega að hópar sátu fyrir honum á leið úr skólanum, það var vakað yfir hverri hreyfingu hans, hann hæddur endalaust og jafnvel laminn. Mér varð það á að verja hann og einangraðist sjálf fyrir vikið því það þótti ekki fínt að vera ‘horkögglasleikja’. Ég ætlaði ekki að falla í þá gryfju aftur en auk þess fór allt sem þessi kennari sagði öfugt ofan í mig.

Kennarinn svaraði því til að þótt einelti (ég held reyndar að hann hafi verið fyrsta manneskjan sem ég heyrði nota það orð) viðgengist í einhverjum öðrum skóla, sæi hann ekki átæðu til að umbera það sjálfur. Ég skildi hvað hann átti við og var honum sammála. Hinsvegar þoldi ég hann ekki. Reyndar hafa fáir menn farið jafn mikið í taugarnar á mér og ég fann mig knúna til að mótmæla öllu sem hann sagði. Ég hélt því fram gegn betri vitund að hann væri að tala um alls óskylda hluti og að eina vandmálið sem þessi drengur ætti við að stríða væri honum sjálfum að kenna. Staða drengsins í hópnum breyttist ekki en líklega hafa einhverjir stillt sig um að láta fyrirlitningu sína í ljós svo kennarinn heyrði.

Mörgum árum síðar hringdi þessi maður í mig og sagðist vilja biðja mig afsökunar ef hann hefði einhvern tíma gert eitthvað á minn hlut. Ég mundi nú ekki eftir neinu öðru en því að hann hafði einhverntíma tekið þátt í því að kíkja inn í sturtuklefann. Ég mundi hinsvegar eftir mörgum atvikum þar sem ég hefði getað verið almennileg við hann en hunsaði hann, þar sem ég hreytti ónotum í hann fyrir sakir sem ég hefði ekki gert athugasemdir við ef einhver annar hefði átt í hlut. Hann var einlægur og ekki að heyra að hann teldi mig bera neina ábyrgð. Ég spurði manninn hvers konar rugl þetta eiginlega væri, hann hefði sjálfur verið þolandinn.Hann sagðist vera nýkominn úr áfengismeðferð og það væri hluti af batanum að biðja alla sem maður hefði skaðað afsökunar.

Seinna frétti ég að hann hafði hringt í hin bekkjarsystkinin líka. Þá missti ég endalega álitið á AA samtökunum

 

Það sem mér bara sýnist

Ég ætlaði að verða lögfræðingur. Fyrirmyndin var úr bíómyndum, málsvari réttlætisins í ætt við Matlock. Ég ætlaði reyndar líka að verða skáld og trúði því ekki að annað þyrfti endilega að útiloka hitt.

Seinna komst ég að því að flestir lögfræðingar eru aðallega rukkarar og lögmenn þurfa iðulega að verja skíthæla. Ég komst líka að því að flest skáld hafa viðurværi sitt af kennslu eða blaðamennsku. Um svipað leyti rann upp fyrir mér að flestir málsvarar réttlætisins eru alls ekki lögfræðingar og að mörg þeirra kvæða sem sungin eru áratugum og öldum saman eru ekki eftir fólk sem hafði tekjur af því að skrifa.

Og þá fór ég að hugsa um hvort maður þyrfti endilega að verða eitthvað. Hvort það væri kannski valkostur í stöðunni að gera bara það sem manni sýnist hverju sinni.

Og það gerði ég.

Kallinn með dauðablettinn

skalli-688x451

Afi og amma áttu vin sem mér fannst athyglisverður. Hann talaði skringilega og á nauðasköllóttum hausnum á honum var dæld eins og á höfði ungbarns, nema á öðrum stað. Ég vissi að börn fæddust með svona op á milli höfuðbeinanna og að sá hluti höfuðsins var svo viðkvæmur að það gat verið stórhættulegt að snerta hann. Halda áfram að lesa