Afi og amma áttu vin sem mér fannst athyglisverður. Hann talaði skringilega og á nauðasköllóttum hausnum á honum var dæld eins og á höfði ungbarns, nema á öðrum stað. Ég vissi að börn fæddust með svona op á milli höfuðbeinanna og að sá hluti höfuðsins var svo viðkvæmur að það gat verið stórhættulegt að snerta hann.
Einhverju sinni sat vinurinn í lágum stól og ég hefði getað rétt höndina fram og potað í dauðablettinn. Mér leið einkennilega í hjartanu þar sem ég stóð og vissi að bara með því að pota í hausinn á honum, gæti ég snert heilann og kannski drepið hann. Ég þorði ekki að pota.
Mér var sagt að hann talaði svona einkennilega af því að hann væri Þjóðverji og að dældin á höfði hans væri afleiðing af því að hann hefði fengið sprengjubrot í hausinn í stríðinu. Höfuðkúpan hefði brotnað og hann væri mjög heppinn að hafa ekki dáið eða allavega orðið að ‘aumingja’ eins og amma kallaði það.
-Var hann þá að fikta með sprengjur? spurði ég, því ég vissi að slys stafa iðulega af fikti. Ömmu Hullu fannst það bráðfyndin tilgáta en sagði mér að hann hefði nú verið hermaður og að ljótu kallarnir leggðu í vana sinn að kasta sprengjum í hermenn.
Seinna komst ég að því að Þjóðverjar hefðu reynt að útrýma Gyðingum í stríðinu. Ég hef líklega verið 6-7 ára og mamma sagði mér að þótt Hitler hefði kannski verið aðal ljóti kallinn, þá hefði hann ekkert verið einn, það hefðu margir hermenn hjálpað honum að skjóta Gyðingana og reka þá í gasklefa.
Næst þegar vinurinn kom í heimsókn til ömmu og afa, leit ég hann bláum augum og spurði;
-Drapst þú Gyðinga í stríðinu?
Amma þreif mig upp af sömu snerpu og þegar ég ætlaði að hlýja mér á eldarvélarhellu nokkrum árum áður og fór með mig fram í eldhús.
Ég vissi að ég hafði gert eitthvað af mér. Ég vissi líka að þau hlaut að vera óvart því amma skammaði mig ekki. Hún leyfði mér að sitja á eldhússbekknum og borða lummur en ég fékk ekki að fara inn í stofu aftur.
Löngu seinna rann upp fyrir mér að ef ég hefði potað í dauðablettinn hefði amma hvæst á mig. En hún hefði ekki fjarlægt mig úr stofunni.