Eskimóaskíturinn

Ég held að ég hafi verið 8 ára þegar lítill strákur af inúítaættum var gestkomandi í þorpinu í nokkra daga. Einhverju sinni var ég að leika mér við heimili skólasystur minnar ásamt fleiri krökkum og við heyrðum köll berast úr næstu götu, það var greinilega verið að stríða einhverjum. Ein stelpnanna spratt á fætur, svona líka glöð.

-Þau eru að hrekkja eskimóann, komum! sagði hún upprifin, þaut af stað og hinir fylgdu henni. Ég greindi orðið ‘eskimóaskítur’ þegar köllin færðust nær.

Stelpan sem bjó í húsinu hafði farið inn einhverra erinda en kom út í þann mund sem þau voru að hlaupa burt og ég spurði hvort hún vissi hversvegna þeim væri svona illa við drenginn. Hún varð hálfvandræðaleg þegar hún sá hvað ég var hneyksluð og útskýrði að það að hrekkja eskimóa væri góð skemmtun. Ég fékk hana til að koma með mér inn til mömmu sinnar og klaga. Hún var tvístígandi en kom þó með mér.

Mamma hennar tók erindinu vel. Hún kom út með okkur og skammaði krakkapöddurnar sem höfðu slegið hring um þennan litla sakleysingja til að hrella hann.
-Látið hann bara í friði og skammist ykkar, hann getur ekkert að þvi gert þótt hann sé eskimói
, sagði mamman reið. Það dugði til þess að þau hættu og drengurinn fór skælandi heim.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en síðar, nákvæmlega hvað það var sem stakk mig en á því augnabliki varð mér ljóst að fordómar birtast ekki eingöngu í ofsóknum.

Nokkrum árum síðar stóð ég svo sjálfa mig að því að gera lítið úr einelti.