Afi og amma tóku mig með sér í útilegu inn í Landmannalaugar. Vinafólk þeirra var með í ferðinni en þau voru ekki með börn. Ég var vön að una mér ein, fyrirferðarlítil og ólíkleg til að fara mér að voða, svo ég var ekki undir ströngu eftirliti fyrsta daginn.
Við vorum varla búin að tjalda þegar Fúsi flakkari kom og heilsaði. Hann hafði verið á staðnum fyrir en ákvað að færa tjaldið sitt og tjaldaði rétt hjá okkur. Hann spjallaði svolítið við afa og Ingólf og virtist besti kall.
Fúsi var ósköp góður við mig. Hann kom til mín þar sem ég var að dunda við að raða steinum og lék við mig. Svo fór hann með mig í gönguferð, leyfði mér að skoða landslagið í kíkinum sínum og spjallaði heilmikið við mig. Við vorum komin dálítið lagt frá tjaldinu þegar amma kom æðandi, gargaði á mig og heimtaði að ég kæmi til sín. Við snerum til baka og ég tók ég eftir því að eitthvað hafði breyst. Hvorki afi og amma né vinafólkið töluðu neitt við Fúsa, þau buðu honum ekki kaffi þótt hann stæði þarna við hliðina á mér.
Ég veit ekki hvort það var um kvöldið eða næsta dag sem ég áttaði mig á því að Fúsi var alltaf einn. Hann fór ekki með neinum hópum í gönguferðir og ég sá hann aldrei borða með öðrum eða skála við neinn eins og hitt fólkið. Einu sinni sátum við í laug með fullt af öðru fólki og þegar hann kom fóru skyndilega allir upp úr lauginni. Þegar við gengum frá lauginni heyrði ég að fullorðna fólkið var að tala um hann en ég skildi ekki almennilega það sem sagt var.
Fúsi kom aftur til mín þar sem ég var ein að leika mér. Hann bauð mér inn í tjaldið sitt og gaf mér súkkulaðikex og sagði að ég væri falleg stelpa. Allt í einu var rennilásnum á tjaldinu svipt upp. Það var afi Jói. Ég varð hissa því afi var kurteis maður og ólíkt honum að ráðast inn í annarra manna tjöld án þess að gera vart við sig. Hann var alvarlegur í bragði, sagði mér að koma strax en leit ekki einu sinni framan í gestgjafa minn. Svo bar hann mig yfir í sitt tjald þótt leiðin væri stutt og ég ekkert þreytt.
Amma yfirheyrði mig um öll samskipti mín við Fúsa flakkara. Mér var harðbannað að líta í áttina að þessum manni framar, hvað þá tala við hann. Ég mótmælti því eiga að sýna svona góðum manni dónaskap en afi hélt því fram að til væru mjög vondir menn sem lékju við krakka og gæfu þeim kex og Fúsi flakkari væri einmitt þessháttar maður. Ég fékk engar almennilegar skýringar á því í hverju illska Fúsa flakkara fælist og var verulega vantrúuð.
Eldsnemma morguninn eftir þegar ég var að leika við hundana hennar ömmu fyrir utan tjaldið, stóð þessi vinur minn lengi álengdar og fylgdist með mér. Ég var hlýðin og rétt gjóaði augunum til hans en sá að hann langaði að koma og leika við hundana. Eftir litla stund kom Ingólfur hálfklæddur út úr sínu tjaldi, óð að Fúsa flakkara og rak hann burt með ókvæðisorðum. Ég var miður mín yfir þessari framkomu. Amma og afi komu út og líka Bubba, konan hans Ingólfs og þau virtust öll reið við Fúsa.
Það sem eftir var dagsins leit fullorðna fólki ekki af mér eitt andartak. Undir kvöld var Fúsi flakkari búinn að pakka tjaldinu sínu saman og var greinilega á förum.