… og sá að það var harla gott

Ég ætlaði að verða lögfræðingur. Fyrirmyndin var úr bíómyndum, málsvari réttlætisins í ætt við Matlock. Ég ætlaði reyndar líka að verða skáld og trúði því ekki að annað þyrfti endilega að útiloka hitt.

Seinna komst ég að því að flestir lögfræðingar eru aðallega rukkarar og lögmenn þurfa iðulega að verja skíthæla. Ég komst líka að því að flest skáld hafa viðurværi sitt af kennslu eða blaðamennsku. Um svipað leyti rann upp fyrir mér að flestir málsvarar réttlætisins eru alls ekki lögfræðingar og að mörg þeirra kvæða sem sungin eru áratugum og öldum saman eru ekki eftir fólk sem hafði tekjur af því að skrifa.

Og þá fór ég að hugsa um hvort maður þyrfti endilega að verða eitthvað. Hvort það væri kannski valkostur í stöðunni að gera bara það sem manni sýnist hverju sinni.

Og það gerði ég.