Þegar amma lét Sjálfstæðisflokkinn mála gangstéttarbrún

Theódór Norðkvist birtir á vefbók sinni, mynd af löggubíl sem lagt er við gula línu og spyr hvort löggan megi brjóta lög.

Ég, sem er fljót að trúa öllu illu upp á lögguna, dæmdi þá sem voru á þessum bíl óðar seka um lögbrot. Óskar Thorkelsson bendir hinsvegar á að í reglugerð með umferðarlögunum er talað um akbraut og þarna er ekki akbraut heldur bensínstöðvarplan. Þessi löggugrey brutu semsagt ekki lög með að leggja þarna.

Í tenglsum við þetta rifjaðist upp fyrir mér gömul saga úr fjölskyldunni.

Amma Hulla og afi Jói bjuggu í Garðabænum, í íbúð fyrir eldri borgara, síðustu árin sem þau lifðu. Stundum lögðu gestir nágrannanna bílum sínum við stéttina og það fór í taugarnar á ömmu. Amma var af ætt forhertra Sjáfstæðismanna og nokkrum vikum fyrir kosningar (ég held að þetta hafi verið sveitastjórnarkosningarnar 1994) hringdi hún á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins og bað um að flokkurinn sendi mann með málningu og pensil til að mála gangstéttarkantinn gulan.

Nokkrum dögum síðar, þegar enginn málari var kominn, hringdi hún aftur og bað um Ingu Jónu í símann. Kvartaði undan þjónustunni, sagðist geta lánað flokknum pensil en hvort ellilífeyrisþegi þyrfti virkilega að snattast í málningarbúð sjálfur og liggja á hnjánum á malbikinu. Gaf í skyn að hún myndi mála röndina sjálf ef flokkurinn sendi ekki málara hið snarasta.

Tveimur dögum síðar var enginn kominn enn. Þá hringdi amma aftur í Ingu Jónu. Í þetta sinn gaf hún í skyn að hún og allt hennar fólk myndi kjósa kratana ef gula línan yrði ekki máluð hið snarasta. Þeir komu morguninn eftir.

Iss, það held ég þeir geti dratthalast til að mála eina rönd, ætli maður eigi það ekki inni hjá þeim, sagði hún þegar ég hneykslaðist á því að kerlingar gætu stjórnað vegamerkingum með því að hætta að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Ég er nú kannski ekki hissa á að þeir hafi fylgi ef þeir eru kosnir út á einhverja svona stjórnsemi sagði ég.

Kosnir og ekki kosnir, þeir fá nú ekki að fylgja fólki í kjörklefana þótt þeir séu frekir,
sagði amma. Svo tautaði hún eitthvað við hundana eins og venjulega þegar hún þóttist ekki vilja ræða málið frekar.Amma, ertu virkilega að hugsa um að hætta að kjósa Sjálfstæðisflokkinn? spurði ég og fann að ég var skrýtin á svipinn.
Elskan mín góða, það er langt síðan ég hætti að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef kosið kratana frá því að Kjartan Jóhannsson fók við formennsku, sagði amma.
Nú hvað? Maður má nú kannski nýta sér þjónustuna samt, eins og maður er búinn að mylja undir þá, bætti hún við.

Ég starði agndofa á hana. Þau afi rifust um pólitík daglega og alltaf hélt hún fram yfirburðum Sjálfstæðisflokksins. Hún hafði sagt sonum mínum með miklu stolti að örninn væri merki Sjálfstæðisflokksins. Gott ef Örn sonur þeirra var ekki bara nefndur eftir þeim erni.
En þú skalt eiga mig á fæti ef þú segir honum afa þínum það góan, sagði hún svo.

Þegar afi kom heim, sýndi hún honum gulu röndina heldur en ekki roggin. Þetta hefðu nú kommalufsurnar ekki gert fyrir þau. Nei það var nú aldeilis munur að geta leitað til stjórnmálaflokks sem hlustaði á hinn almenna borgara.

Ég hef aldrei velt því fyrir mér áður hvað gula röndin merkir í raun, bara forðast að stöðva bíl við gulan kant. En nú er ég að pæla í því hvort eigendur fyrirtækja eða eigendur íbúðarhúsa megi virkilega mála rönd eða koma fyrir öðrum umferðartáknum sem benda til þess að löglegt athæfi sé ólöglegt.

One thought on “Þegar amma lét Sjálfstæðisflokkinn mála gangstéttarbrún

  1. Dásamleg saga!

    Posted by: Þorkell | 9.07.2011 | 14:07:04

    Amma þín gerði bara það sem þarf til að bjarga sér. Þetta kallast sjálfstæði. Þegar enginn, sem á hlusta, hlustar ekki, eða sá sem á að gera hlutina, þá bara er um að gera að redda sér hvernig sem það er gert. Er það ólöglegt?, ég veit það ekki, en það er alveg eins ólöglegt að gera ekki neitt í hlutunum, það getur bara verið hættulegt beinlínis, eins og t.d að legga bíl fyrir framan bílsatæði, getur verið hættulegt. Amma þín hefði geta bakkað á hann. En ég verð að segja í lokin, að þetta sjáfstæði sem amma þín sýndi, er landlægt í ættinni þinni Eva. Nú passar fólk sig bara orðið of mikið, að opna munninn, sér til björgunar. Það gæti verið klagað, eða kært. En amma þín og hennar fólk var ekki hrætt við nokkurn skapaðan hlut, og lét móðan mása. Svoleiðis á það að vera. Ég er svo stoltur af þessu fólki og hafa þekkt það. Þau voru svo miklar hetjur og skemmtilegt fólk og miklar persónur.

    Posted by: Guðni.. | 9.07.2011 | 22:26:56

    ..Leiðrétting..“Þegar enginn sem á að hlusta, hlustar ekki, eða sá sem á að gera hlutina, gerir þá ekki“, þá er bara um að gera að redda sér hvernig sem það er gert….

    Posted by: Guðni | 9.07.2011 | 22:33:02

    Amma kunni alveg að bjarga sér 🙂 En ef maður má mála (eða láta Sjálfstæðisflokkinn mála) gangstéttarkant gulan, má maður þá líka mála mynd af hjólastól í bílastæði?

    Posted by: Eva | 10.07.2011 | 5:19:39

    Það má láta reyna á það með hjólastólastæðið..en það vantar leyfispassann frá Tr og Sjúkrasamlaginu, hehe, svo það gæti orðið dýrt spaug.. 🙂

    Posted by: Guðni | 10.07.2011 | 23:26:53

     

Lokað er á athugasemdir.