Fyrirgefið að þið skulið hafa pínt mig

Nokkrum árum eftir þennan atburð stóð ég sjálfa mig að því að gera lítið úr eineltismáli.

Strákur í bekknum mínum var settur hjá og þegar verst lét áreittur. Hann var klaufi í samskiptum eins og flest eineltisbörn og reyndi stundum að komast inn í hópinn með því að spila sig töffara en það fór honum illa. Hann sætti ekki ofbeldi en engum duldist að hann var neðstur í goggunarröðinni og honum var sjaldan boðið að vera með í neinu.

Einhverju sinni reyndi einn kennarinn að gera okkur ljóst að við værum vond við hann og það að ástæðulausu, Ég sagði honum að stráksi væri vanhæfur í samskiptum og að hann væri að gera allt of mikið úr þessu. Ég hafði árið áður verið í bekk með strák sem var beinlínis píndur. Svo alvarlega að hópar sátu fyrir honum á leið úr skólanum, það var vakað yfir hverri hreyfingu hans, hann hæddur endalaust og jafnvel laminn. Mér varð það á að verja hann og einangraðist sjálf fyrir vikið því það þótti ekki fínt að vera ‘horkögglasleikja’. Ég ætlaði ekki að falla í þá gryfju aftur en auk þess fór allt sem þessi kennari sagði öfugt ofan í mig.

Kennarinn svaraði því til að þótt einelti (ég held reyndar að hann hafi verið fyrsta manneskjan sem ég heyrði nota það orð) viðgengist í einhverjum öðrum skóla, sæi hann ekki átæðu til að umbera það sjálfur. Ég skildi hvað hann átti við og var honum sammála. Hinsvegar þoldi ég hann ekki. Reyndar hafa fáir menn farið jafn mikið í taugarnar á mér og ég fann mig knúna til að mótmæla öllu sem hann sagði. Ég hélt því fram gegn betri vitund að hann væri að tala um alls óskylda hluti og að eina vandmálið sem þessi drengur ætti við að stríða væri honum sjálfum að kenna. Staða drengsins í hópnum breyttist ekki en líklega hafa einhverjir stillt sig um að láta fyrirlitningu sína í ljós svo kennarinn heyrði.

Mörgum árum síðar hringdi þessi maður í mig og sagðist vilja biðja mig afsökunar ef hann hefði einhvern tíma gert eitthvað á minn hlut. Ég mundi nú ekki eftir neinu öðru en því að hann hafði einhverntíma tekið þátt í því að kíkja inn í sturtuklefann. Ég mundi hinsvegar eftir mörgum atvikum þar sem ég hefði getað verið almennileg við hann en hunsaði hann, þar sem ég hreytti ónotum í hann fyrir sakir sem ég hefði ekki gert athugasemdir við ef einhver annar hefði átt í hlut. Hann var einlægur og ekki að heyra að hann teldi mig bera neina ábyrgð. Ég spurði manninn hvers konar rugl þetta eiginlega væri, hann hefði sjálfur verið þolandinn.Hann sagðist vera nýkominn úr áfengismeðferð og það væri hluti af batanum að biðja alla sem maður hefði skaðað afsökunar.

Seinna frétti ég að hann hafði hringt í hin bekkjarsystkinin líka. Þá missti ég endalega álitið á AA samtökunum

 

One thought on “Fyrirgefið að þið skulið hafa pínt mig

 1. Tjásur:

  Jámm, einelti birtist á marga vegu.

  Ég er líka löngu búin að missa allt álit á AA samtökunum.

  Posted by: hildigunnur | 1.06.2010 | 10:37:21

  ————————————————————-

  Þeir sem ekki eru alkar þurfa væntanlega ekki á AA samtökunum að halda og því aukaatriði hvað þeim finnst um þau samtök. Það er hins vegar góður punktur hjá hinum einelta að biðja ykkur kvalarana afsökunar, það er það eina sem kemur illa við ykkur, knýr ykkur til að hugsa málið, um leið og hann losnar við ykkur úr höfðinu á sér. Til þess er nú leikurinn gerður, að losna við hemfarhugan til ykkar. Svo ættuð Þið að mæta á AA fund svo þið hafið eitthvað að fordæma.

  Posted by: Guðmundur Ólafsson | 1.06.2010 | 13:54:00

  ————————————————————-

  Leikurinn var ekki gerður til þess að fá okkur til að hugsa málið Guðmundur, heldur var hann í alvöru að taka á sig ábyrgðina á hlutum sem hann bar enga ábyrgð á.

  Ég hef sjálf mætt á fundi bæði hjá AA og Al anon. Þetta eru ógeðfelldir sértrúarsöfnuðir sem skila engum árangri.

  http://www.orange-papers.org/orange-effectiveness.html

  http://lifering.org/trxpro/JTimothyHunt.pdf

  http://www.facebook.com/profile.php?id=603012962&v=app_2347471856#!/note.php?note_id=385219953659

  Posted by: Eva | 1.06.2010 | 20:23:56

  ————————————————————-

  Það er alltaf gaman að lesa fabúlur fólks um það sem það veit líklega ekkert um. Í þessum tilvísunum kemur ekkert af viti um drykkjusýki eða AA. Ég hef stúderað Alkóhólisma í 35 ár og sótt fundi í AA svipaðan tíma. Nú er leið AA enganvegin fyrir alla og ég skil vel að þú aðhyllist ekki AA enda eru þau samtök ekki fyrir þig. En ég fullyrði að hugmyndir þínar um drykkjusýki og efnafýkna yfirleit, eru barnalegt röfl.

  Posted by: Guðmundur Ólafsson hagfræðingur | 2.06.2010 | 12:24:58

Lokað er á athugasemdir.