Segðu þína skoðun

Minn innri málfræðingur fékk frekjukast í gær. Sá einhversstaðar eitthvað á þessa leið:

Hefur þú fengið punkt fyrir umferðarlagabrot? Farðu inn á eitthvað.is og segðu þína skoðun.

HALLÓ! Hefur maður yfirhöfuð skoðun á því hvort maður hefur fengið punkt eða ekki? Er þetta ekki einföld staðreyndaspurning? Ég hef alltaf haldið að skoðanir væru í eðli sínu umdeilanlegar. Hefur það eitthvað breyst?

Kartafla borin fram með bl

Við skrifum ekki eins og við tölum og við tölum ekki eins og við skrifum. Hikum því aldrei við að leiðrétta börnin okkar þegar við verðum þess vör að þau taka upp stafsetningarframburð á orðum sem þau þekkja illa. Því miður er regla fremur en undantekning að Íslendingar undir fimmtugu, beri dýflissa fram með fl í stað bl. Hygg ég að ástæðan sé sú að flest okkar lærðu þetta orð af bókum. Undarlegra er hversu algengt er að kartafla sé borið fram með fl í stað bl.

Samstafan fl í miðju orði og enda orðs er borin fram sem bl í íslensku. Skófla, fífl, efla, og tafl eru öll borin fram með bl og ég vona að svo verði áfram. Það koma vöblur á mig, ef mér er varpað í dýblissu og gert að eta kartöblur. Fyrir alla muni stafsetjum þessi orð samt með fl, hér eftir sem hingað til.

 

Forðumst óorð

Ég er ósátt við aukna tilhneigingu til að nota forskeytið -ó þótt þess sé engin þörf. Ég sé ekki hagræði í því að nota orð á borð við óáhugasamur í stað áhugalaus eða óumhyggjusamur í stað umhyggjulaus.

Fleiri dæmi eru til um hörmulegar samsetningar orðhluta en þessi forskeytistilhneiging kemur áreiðanlega sterkast fram í ó-inu. Ég hef t.d. heyrt orðið óábyrgðarfullur! Er eitthvað erfiðara að segja ábyrgðarlaus eða óábyrgur en að búa til orðskrípi sem er samsett úr forskeyti, nafnorði og lýsingarorði?

Ég skil tilhneiginguna til að einfalda málið. Þessi sérkennilegu ó-orð eru hins vegar hreint ekki dæmi um einföldun. Þvert á móti er verið að flækja málið með þessum óskunda. Bætum ekki óþarfa ó-orðum í tunguna. Það gæti komið á hana slíku óorði að fólk veigri sér við að læra hana vel.

Hver er þessi dularfulla stærðargráða?

Oft er viðeigandi að nota formlegt málfar fremur en hversdagslegt. Hins vegar er það alrangt sem sem sumir virðast álíta, að formlegt málfar eigi helst að vera uppskrúfað, jafnvel nánast óskiljanlegt. Dæmi um uppskrúfað og illskiljanlegt orð sem gjarnan er notað í fjölmiðlum er orðskrípið stærðargráða. Veit einhver hvernig stærðargráður eru reiknaðar? Hversu stórt er hús af þessari stærðargráðu eða byggðarlag af þessari stærðargráðu? Er stærðargráðan alltaf „þessi“ eða getur skóli verið af stærðargráðunni 480 eða bygging verið af stærðargráðunni 25? Mér skilst að stærðargráða sé til sem stærðfræðihugtak en ég efast um að þeir sem nota þetta orð í daglegu tali og í fjölmiðlum hafi nokkra hugmynd um hvað stærðargráður eru eða til hvers þær eru notaðar.

Þegar við komum fram opinberlega skiptir meira máli að fólk skilji það sem við segjum en að það átti sig á því hvað við höfum mikinn orðaforða. Ef formlegt málfar er okkur óeiginlegt, tölum þá frekar venjulega íslensku.

Aðilar eiga aðild

Sumir virðast álíta að gott mál hljóti að vera afskaplega formlegt. Fólk sem annars er prýðilega talandi á það til að skrúfa málfar sitt upp við ákveðnar aðstæður, t.d. á fundum eða ef það kemur fram í fjölmiðlum. Útkoman verður oft beinlínis neyðarleg. T.d. virðast margir telja að það sé viðeigandi að nota leiðindaorðið aðili hvar sem því verður viðkomið. Engu er líkara en að þeir sem ofnota þetta orð skilji ekki merkingu þess en haldi að aðili sé fínna, merkilegra eða formlegra orð yfir mann. Þannig verða til setningar svosem: “fimmtán aðilar taka þátt í keppninni” í stað fimmtán manns. “Lögreglan ræddi við þrjá aðila” í stað þrjá menn, (sem eiga ekki endilega aðild að málinu).

Aðili er sá sem á aðild að einhverju, t.d. dómsmáli eða samkomulagi. Þetta orð er ónothæft í nokkurri annarri merkingu.

Efstastigsheilkennið

Málið er í stöðugri þróun. Stundum skipta orð smám saman um orðflokk. Sennilega eru greinilegustu dæmin um það samsetningar úr atviksorðum og sögnum sem eru að breytast í lýsingarorð. Þannig má deila um hvort háttsettur er lýsingarorð sem beygist; háttsettur, háttsettari, háttsettastur eða atviksorð + sögn.

Iðulega tala fjölmiðlar um háttsettustu menn landsins. Sjálfri finnst mér rökrétt að tala um hæst settu menn landsins. Sömuleiðis vil ég að einn sé betur stæður en annar í stað þess að vera velstæðari.

Þetta er umdeilanlegt, enn a.m.k. Þó er engum vafa undirorpið að rétt er að tala um fólk á skítalaunum sem hina lægst launuðu. Með því að tala um þá lægst launuðustu erum við bæði búin að setja atviksorð í efstastig og einnig breyta sagnorði í lýsingarorð. Og það gengur bara ekki.

Ég get ekki gert upp við mig hvað mér finnst mest hræðilegast; veltengdasta fyrirtækið, beststæðasta fyrirtækið eða lægstlaunaðasti samfélagshópurinn.

Tvenns konar beyging nægir

Algengt er að fólk blandi saman þágufalli töluorðanna tveir og þrír.
Þessi orð eru til með tvennskonar beygingu: sumir segja tveimur og þremur í þágufalli, aðrir tveim og þrem. Hvorttveggja er jafnrétthátt en orðmyndirnar tvem og tvemur eru hinsvegar afleitir sambræðingar þessara tveggja orða.

Tvenns konar beyging er nógu flókin þótt við bætum ekki fleiri möguleikum við. Temjum okkur að segja tveim eða tveimur með greinilegu ei-i. Og kennum börnum okkar það líka.