Aðilar eiga aðild

Sumir virðast álíta að gott mál hljóti að vera afskaplega formlegt. Fólk sem annars er prýðilega talandi á það til að skrúfa málfar sitt upp við ákveðnar aðstæður, t.d. á fundum eða ef það kemur fram í fjölmiðlum. Útkoman verður oft beinlínis neyðarleg. T.d. virðast margir telja að það sé viðeigandi að nota leiðindaorðið aðili hvar sem því verður viðkomið. Engu er líkara en að þeir sem ofnota þetta orð skilji ekki merkingu þess en haldi að aðili sé fínna, merkilegra eða formlegra orð yfir mann. Þannig verða til setningar svosem: “fimmtán aðilar taka þátt í keppninni” í stað fimmtán manns. “Lögreglan ræddi við þrjá aðila” í stað þrjá menn, (sem eiga ekki endilega aðild að málinu).

Aðili er sá sem á aðild að einhverju, t.d. dómsmáli eða samkomulagi. Þetta orð er ónothæft í nokkurri annarri merkingu.