Heildræn hryggsúla

hryggsúla

Hvaða fáráður innleiddi orðs-krípið „heildrænt“ í íslensku? Færið mér hann og ég mun bíta af honum hausinn.

-Einhverju sinni sinni auglýsti bílaþvottastöð „heildræn bílaþrif“.
-Einu sinni sá ég auglýst einhverskonar jóganámskeið sem átti að fela í sér „heildrænar lausnir í bakverkjum“. Ekki einu sinni við bakverkjum heldur í þeim.

Heildræn hryggsúla held ég þó að slái öllu út.

 

 

Að gæsast

gæsÉg get ekki gert upp við mig hvort mér finnst hroðalegra, nafnorðið „gæsun“ eða sögnin „að gæsa“. Það liggur í orðanna hljóðan að með slíkum athöfnum sé verið að gera einhverja að gæs – ekki beint viðeigandi rétt fyrir brúðkaup. Fyrir utan að „gæsaðar“ konur eru iðulega gagnkynhneigaðar og færi því betur á að karlmenn tækju að sér að „gæsa“ þær.

Orðskrípin „steggjun“ og „að steggja“ snerta svosem ekki hjartans hörpustrengi heldur en þó finnst mér einhvernveginn skárra að kalla karlmann stegg en konu gæs. Mín kynslóð ólst upp við þá hugmynd að það væri fremur jákvætt að vera steggur. Orðið gæs var hinsvegar notað um stúlkur sem voru lítt vandar að virðingu sinni í vali á bólfélögum og átti það jafnt við um fjölda og mannvirðingu þeirra sem þær hleyptu uppí til sín.

Merking orða breytist í tímans rás og kannski gæti ég vanist því að kalla konur sem ég kann vel við gæsir. Ég mun hinsvegar aldrei fella mig við „að gæsa“ konu eða taka þátt í gæsun. Vinkonur mínar verða sjálfar að bera ábyrgð á því ef þær gerast gæsir, eða láta gæsast.

Hvað sem því líður vil ég endilega láta beygja þessa sögn þannig:
gæsa -gæsti -gæst.

Lífsstíllinn

píslargangaDálítið undarlegt að kalla gönguferð á fögrum stað í góðu veðri, með hressingu í lokin, píslargöngu. Maður fær svona á tilfinninguna að menn hafi ekki alveg áttað sig á merkingu orðsins.

Reyndar lýkur víst göngunni með því að þátttakendur þurfa að hlusta á lestur úr skáldskaparhroða þeim er kallast Passíusálmar. E.t.v. á það að réttlæta nafngiftina á þessum labbitúr.

Já og eitt enn varðandi þessa frétt af píslargöngunni; margir hafa gert hana að „lífsstíl“, segir í blaðinu.

Mér hefur nú þótt orðið lífsstíll full mikið notað að undanförnu en þó tekur nú steininn úr þegar árleg gönguferð er flokkuð sem lífsstíll. Sennilega „lífsstíll aðila af þessari stærðargráðu“.

Opnun eða afgreiðsla

Mér finnst opnunartími vera skrýtið orð. Opnun hlýtur að tákna þá aðgerð að opna. Ef opnunartíminn er frá 9-17, tekur þá 8 klst að opna dyrnar?

Ég geri mér engar vonir um að opnunartímar verði aflagðir og afgreiðslutímar teknir upp í staðinn en ólíkt þykir mér nú afgreiðslutíminn þjálla orð og fegurra.

leytast eftir kinlýfi

Í dag er það orðatiltækið að leita eftir eða að leitast eftir sem ég ætla að nöldra yfir.

Við leitum að hlutum eða sækjumst eftir þeim og leitumst við að finna bestu lausnina.

Ennþá hroðalegri útgáfa af þessu klúðri er algeng á vefnum einkamal.is. Þar er nokkuð um að giftir mennn og graðir, sætir og saklausir eða feitir og forvitnir séu að leytast eftir kinlýfi. (Gjarnan með börnum ef eitthvað er að marka Kompás.)

Smjörþefur og nasasjón

Að fá nasasjón af einhverju merkir að fræðast lítillega eða fá lágmarks innsýn í það sem um ræðir. Nasasjón þarf alls ekki að vera neikvæð.

Að finna smjörþefinn er hinsvegar alltaf neikvætt. Sá sem finnur smjörþefinn af því sem er í vændum getur verið viss um að það verður ekki þægilegt enda er átt við smjör sem farið er að súrna.

Þessum tveimur orðatiltækjum er mjög oft ruglað saman í daglegu máli og fjölmiðlum. Ég man til dæmis eftir glaðlegri tilkynningu um að áhorfendur fengju nú smjörþefinn af Eurovision. Mér finnst sú söngvakeppni reyndar frekar súr en það var áreiðanlega ekki sú merking sem auglýsandinn ætlaði að koma áleiðis.

Hið bráðskemmtilega orðtak að fá nasaþefinn af einhverju er víst ekki samsláttur  heldur viðurkennt orðasamband, ef marka má Árnastofnun, sömu merkingar og nasasjón. Það virðist kannski nærtækara að finna þef í nösum en að sjá með nösunum en mig grunar nú samt að upphaflega hafi þetta verið samsláttur.

Hvernig þefur er annars af nösum? Lykta nasir ekki helst af hori? Það virðist rökrétt en ég hef þó ekki enn heyrt neinn tala um að fá horþefinn af einhverju. Sem gæti þó verið áhugavert.

Með unga í maganum

downloadÁ vísi.is er þessa frétt að finna:

Þrettán ára gömul risapanda í dýragarði í San Diego eignaðist í gær unga. Unginn kom í heiminn eftir þriggja klukkutíma erfiðar hríðir en annar ungi sem pandan bar einnig dó í maganum á henni.

Úff! ég segi nú ekki annað. Eina spendýrið sem ég veit til þess að hafi lifandi ungviði í “maganum” er Grýla. Magi er nefnilega líffæri sem er notað til að melta fæðu en ekki til að bera afkvæmi. Maginn er ásamt fleiri líffærum, þ.á.m. legi (hjá kvendýrum) staðsettur í kviðnum. Það er eðlilegt að börn og aðrir illa upplýstir óvitar rugli þessu tvennu saman og tali um að ólétt spendýr séu með börn eða unga “í maganum” en ég vona að flestir séu nú komnir með þetta á hreint um það leyti sem þeir ljúka grunnskólanámi.