Að gæsast

gæsÉg get ekki gert upp við mig hvort mér finnst hroðalegra, nafnorðið „gæsun“ eða sögnin „að gæsa“. Það liggur í orðanna hljóðan að með slíkum athöfnum sé verið að gera einhverja að gæs – ekki beint viðeigandi rétt fyrir brúðkaup. Fyrir utan að „gæsaðar“ konur eru iðulega gagnkynhneigaðar og færi því betur á að karlmenn tækju að sér að „gæsa“ þær.

Orðskrípin „steggjun“ og „að steggja“ snerta svosem ekki hjartans hörpustrengi heldur en þó finnst mér einhvernveginn skárra að kalla karlmann stegg en konu gæs. Mín kynslóð ólst upp við þá hugmynd að það væri fremur jákvætt að vera steggur. Orðið gæs var hinsvegar notað um stúlkur sem voru lítt vandar að virðingu sinni í vali á bólfélögum og átti það jafnt við um fjölda og mannvirðingu þeirra sem þær hleyptu uppí til sín.

Merking orða breytist í tímans rás og kannski gæti ég vanist því að kalla konur sem ég kann vel við gæsir. Ég mun hinsvegar aldrei fella mig við „að gæsa“ konu eða taka þátt í gæsun. Vinkonur mínar verða sjálfar að bera ábyrgð á því ef þær gerast gæsir, eða láta gæsast.

Hvað sem því líður vil ég endilega láta beygja þessa sögn þannig:
gæsa -gæsti -gæst.