Smjörþefur og nasasjón

Að fá nasasjón af einhverju merkir að fræðast lítillega eða fá lágmarks innsýn í það sem um ræðir. Nasasjón þarf alls ekki að vera neikvæð.

Að finna smjörþefinn er hinsvegar alltaf neikvætt. Sá sem finnur smjörþefinn af því sem er í vændum getur verið viss um að það verður ekki þægilegt enda er átt við smjör sem farið er að súrna.

Þessum tveimur orðatiltækjum er mjög oft ruglað saman í daglegu máli og fjölmiðlum. Ég man til dæmis eftir glaðlegri tilkynningu um að áhorfendur fengju nú smjörþefinn af Eurovision. Mér finnst sú söngvakeppni reyndar frekar súr en það var áreiðanlega ekki sú merking sem auglýsandinn ætlaði að koma áleiðis.

Hið bráðskemmtilega orðtak að fá nasaþefinn af einhverju er víst ekki samsláttur  heldur viðurkennt orðasamband, ef marka má Árnastofnun, sömu merkingar og nasasjón. Það virðist kannski nærtækara að finna þef í nösum en að sjá með nösunum en mig grunar nú samt að upphaflega hafi þetta verið samsláttur.

Hvernig þefur er annars af nösum? Lykta nasir ekki helst af hori? Það virðist rökrétt en ég hef þó ekki enn heyrt neinn tala um að fá horþefinn af einhverju. Sem gæti þó verið áhugavert.