Efstastigsheilkennið

Málið er í stöðugri þróun. Stundum skipta orð smám saman um orðflokk. Sennilega eru greinilegustu dæmin um það samsetningar úr atviksorðum og sögnum sem eru að breytast í lýsingarorð. Þannig má deila um hvort háttsettur er lýsingarorð sem beygist; háttsettur, háttsettari, háttsettastur eða atviksorð + sögn.

Iðulega tala fjölmiðlar um háttsettustu menn landsins. Sjálfri finnst mér rökrétt að tala um hæst settu menn landsins. Sömuleiðis vil ég að einn sé betur stæður en annar í stað þess að vera velstæðari.

Þetta er umdeilanlegt, enn a.m.k. Þó er engum vafa undirorpið að rétt er að tala um fólk á skítalaunum sem hina lægst launuðu. Með því að tala um þá lægst launuðustu erum við bæði búin að setja atviksorð í efstastig og einnig breyta sagnorði í lýsingarorð. Og það gengur bara ekki.

Ég get ekki gert upp við mig hvað mér finnst mest hræðilegast; veltengdasta fyrirtækið, beststæðasta fyrirtækið eða lægstlaunaðasti samfélagshópurinn.