Forðumst óorð

Ég er ósátt við aukna tilhneigingu til að nota forskeytið -ó þótt þess sé engin þörf. Ég sé ekki hagræði í því að nota orð á borð við óáhugasamur í stað áhugalaus eða óumhyggjusamur í stað umhyggjulaus.

Fleiri dæmi eru til um hörmulegar samsetningar orðhluta en þessi forskeytistilhneiging kemur áreiðanlega sterkast fram í ó-inu. Ég hef t.d. heyrt orðið óábyrgðarfullur! Er eitthvað erfiðara að segja ábyrgðarlaus eða óábyrgur en að búa til orðskrípi sem er samsett úr forskeyti, nafnorði og lýsingarorði?

Ég skil tilhneiginguna til að einfalda málið. Þessi sérkennilegu ó-orð eru hins vegar hreint ekki dæmi um einföldun. Þvert á móti er verið að flækja málið með þessum óskunda. Bætum ekki óþarfa ó-orðum í tunguna. Það gæti komið á hana slíku óorði að fólk veigri sér við að læra hana vel.