Sharon orðinn pínulítið meira lasinn

Nú hafa borist fréttir af því að Sharon sé alls ekki á bataleið eins og talsmenn hans reyndu að telja alheimi trú um fyrir nokkrum vikum.

Hvernig stendur annars á þessari afneitun í hvert sinn sem valdamaður veikist? Hvaða tilgangi þjónar það að telja almenningi trú um að maður sem liggur fyrir dauðanum sé bara svolítið lasinn? Það hlýtur að hafa eitthvert praktískt gildi, annars væri þetta ekki venjan eða hvað? Getur einhver upplýst mig?

“Við vorum nú ekki í skóla nema fram að sauðburði”

Óttalega þykja mér það heimskuleg rök með skerðingu framhaldsnáms að þrátt fyrir færri kennslustundir í grunnskólum hafi mín kynslóð og þær sem á undan komu, samt sem áður komist til manns.

Faðir minn lauk sinni skólagöngu um 12 ára aldur og komst þó til manns. Ekki af því að kennslan í barnaskólanum hans hafi verið svo frábær, heldur þrátt fyrir hana. Ég leyfi mér að fullyrða að þótt pabbi hafi ekki efast um eigin manndóm, hvarflaði aldrei að honum að taka okkur systurnar úr skóla og senda okkur á sjóinn áður en við urðum mannbærar.

Þar fyrir utan sé ég ekkert sérstakt sem bendir til þess að íslenskur almúgi sé svo vel að sér að ástæða sé til að fara varlega í frekari uppfræðslu.

Smjörþefur og nasasjón

Að fá nasasjón af einhverju merkir að fræðast lítillega eða fá lágmarks innsýn í það sem um ræðir. Nasasjón þarf alls ekki að vera neikvæð.

Að finna smjörþefinn er hinsvegar alltaf neikvætt. Sá sem finnur smjörþefinn af því sem er í vændum getur verið viss um að það verður ekki þægilegt enda er átt við smjör sem farið er að súrna.

Þessum tveimur orðatiltækjum er mjög oft ruglað saman í daglegu máli og fjölmiðlum. Ég man til dæmis eftir glaðlegri tilkynningu um að áhorfendur fengju nú smjörþefinn af Eurovision. Mér finnst sú söngvakeppni reyndar frekar súr en það var áreiðanlega ekki sú merking sem auglýsandinn ætlaði að koma áleiðis.

Hið bráðskemmtilega orðtak að fá nasaþefinn af einhverju er víst ekki samsláttur  heldur viðurkennt orðasamband, ef marka má Árnastofnun, sömu merkingar og nasasjón. Það virðist kannski nærtækara að finna þef í nösum en að sjá með nösunum en mig grunar nú samt að upphaflega hafi þetta verið samsláttur.

Hvernig þefur er annars af nösum? Lykta nasir ekki helst af hori? Það virðist rökrétt en ég hef þó ekki enn heyrt neinn tala um að fá horþefinn af einhverju. Sem gæti þó verið áhugavert.

Getur það verið?

e6f5d2ec8bc0a04ahttp://wayback.vefsafn.is/wayback/20090814000000/http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2006/02/02/foreldrar_thridjungs_barna_i_reykjavik_kaupa_ekki_s/

Af hverju hef ég á tilfinningunni að þessir foreldrar, sem hafa ekki efni á því að kaupa hádegismat handa börnum sínum, tilheyri margir hverjir hópi þeirra sem reykja, stunda svokallaða skemmtistaði og bjóða börnum sínum upp á fitandi og óhollan mat heima?

Af hverju held ég líka að börn fátæklinganna komi ekki með gróft brauð og ávexi í skólann, heldur pening fyrir snúð og kókómjólk? Hvað skyldi slíkur hádegisverður skila miklum sparnaði á ári?

Ég er ekki að segja að fátækt sé ekki staðreynd en ég held að margir geri illt verra með vondri forgangsröðun og að það bitni stundum verst á börnunum.

Ætli þetta séu bara fordómar hjá mér?

Óvænt niðurstaða

indexMig langar að vita meira um þessa könnun sem á víst að sýna fram á að börn hlusti lítið á lesinn texta.

Mig langar t.d. að vita hvort börnin þekktu bækurnar sem voru lesnar fyrir þau eða hvort þetta var allt nýtt fyrir þeim. Mér finnst líklegt að börn séu mjög upptekin af myndunum í fyrsta sinn sem þau sjá nýja bók, en þau virðast nú flest vilja meira af því sama svo oftast eru sömu bækur lesnar fyrir þau oft. Ég hef ekki lesið fyrir ógurlega mörg börn en þegar mínir strákar voru litlir, leiðréttu þeir mig af mikilli ákveðni ef ég sleppti úr setningu eða skipti út orði og ég hef oft heyrt foreldra lýsa sömu reynslu.

Auk þess held ég að samræðurnar sem spretta af því að skoða bók saman séu mikilvægur þáttur í máltökunni og gaman væri að vita hvort eitthvað er komið inn á það í þessari rannsókn.

Ég er allavega ekki tilbúin til að kasta frá mér þeirri sannfæringu að það sé sniðugt að lesa fyrir börn ef maður vill að þau verði vel talandi.

Hryðjuverkavopn endurheimt

Syni mínum Byltingamanninum lukkaðist eftir talsvert þóf að endurheimta pennann sem Vörður laganna og félagi hans gerðu upptækan þegar hann mætti á álráðstefnu síðasta föstudag.

Mér finnst reyndar með ólíkindum að lögreglan skuli leyfa sér að gera vopnaleit á ráðstefnugesti sem aldrei hefur komist í kast við lögin og aldrei tekið þátt í, eða verið viðriðinn við ofbeldi eða skemmdarverk af nokkru tagi. (Hann var ekki einu sinni að mótmæla í þetta sinn, ætlaði bara að fylgjast með umræðum sem reyndar var aflýst) Í lýðveldisríkinu Íslandi virðist vera nóg að mæta á nokkrar friðsamlegar mótmælasamkomur umhverfisverndarsinna til að lenda á lista yfir hryðjuverkamenn.

Mér finnst gott hjá stráknum að krefjast pennans aftur. Þótt um sé að ræða ómerkilegan grip, felst svona dulítil yfirlýsing í því.

Varla bara yfirdráttur?

Þetta hlýtur fjandakornið að vera einhver vitleysa.

Ef heimili landsins eru samanlagt með yfirdrátt upp á 68.000.000.000, þá er meðalskuld á hvert mannsbarn 226.667 kr. Það gera tæp 680.000 á par með eitt barn. Í YFIRDRÁTT!

Ég ætla rétt að vona að þetta sé misskilningur, að inni í þessari tölu séu skuldabréf eða einhverjar aðrar skuldir.