Birta

Evukvæði

Birta

Leit

Það liggur enginn vegur að enda regnbogans
sagðir þú

og í þeirri sælu trú
að regnboginn væri
engin brú til betri heima,
aðeins ósnertanlegt sáttmálstákn almættisins
við dauðhreinsaðar sálir mannanna,
hættir þú leitinni
og sóttir um vinnu
við holræsakerfi borgarinnar.

En þú veist ekki
það sem ég veit.

Litir regnbogans búa
í daunillri olíubrák í höfninni.

Sírennsli

Ást mín á þér er löngu orðin
eins og sírennslið í klósettinu
aðeins rólegt mal,
hluti af tilverunni og
truflar mig ekki lengur.Á þó til að angra næturgesti
sem brölta bölvandi fram úr og sturta niður
í von um frið.

Án árangurs
og kveðja vansvefta að morgni.

Ferð

Stefnuna þekkjum við
og ljósastikur meðfram veginum varða leiðina.
Þó vekur ugg
þessi umferð á móti.

Við stýrið, þú
og ég forðast að segja upphátt
það sem ég les úr kortinu.

Nú er ekkert nema handbremsan
á milli okkar lengur.

Sett í skúffuna í nóvember 2001

Ljóð handa birkihríslum

Síðustu nótt ársins lá hrímþokan yfir Fellunum og kyssti litla birkihríslu ísnálum. „Öll ertu fögur vina“ hugsaði hríslan og speglaði sig í Fljótinu þegar morgunbirtan sindraði á hvítan kjólinn. Síðasta dag ársins varð litlu birkihríslunni kalt og hún fagnaði sólinni sem loksins skreið undan skýi sínu og bræddi héluna af greinum hennar. Á nýársnótt stóð hún nakin frammi fyrir Fljótinu. Henni fannst hún ekki lengur falleg en ekki hrjáði hana kuldinn. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hlýindum svo gættu þín sól, litlar birkihríslur ættu ekki að bruma á vetrum.

Berfættir dagar

Ég hugsa til þorpsins
og minnist gamalla húsa
sem húktu hvert fyrir sig
svo tóm
niðri í fjörunni.

Og berfættra daga
með sand milli tánna
þegar glettnar smáöldur kysstu
blaut spor í sandinum.

Og ég hugsa til þín
og minnist
bláleitra ágústkvölda
sem veltust hlæjandi í grasinu
og hlupu svo burt
út í heiminn
og báru okkur burt
frá berfættum dögum
og bláleitum kvöldum
og hikandi fyrstu kossum
í handsmáu rökkrinu.