Ljóð fyrir ógrátinn Íslending

Andartak þagnar.
Hrafnskló við brjóst.
Hvort mun það Huginn
sem rekur klær milli rifja
eða Muninn sem sífellt rýfur
í marggróin sár?

Kyssir kólralskó
og ég sé í augum þér spurn
bak við litaðar linsurnar.
„Hvað hendir hjarta þess
sem verður þér náinn?“

„Engar áhyggjur ljúfastur,
hrafnar kroppa náinn
-að endingu
en þú ert nú lifandi enn.“

Lifandi enn
og þó stendur haugurinn opinn.
Flýgur hrafn yfir
og enginn þig svæfir.

Ljóð handa vegfaranda

Suma daga sit ég við stofugluggann og bíð eftir að þú gangir fram hjá.

Þú heldur að ég sé að horfa út um gluggann.
Kannski á hundinn nágrannans eða krakka með skólatöskur eða unglingana að reykja bak við sjoppuna.
Stundum veifar þú til mín og bregður fyrir litlu brosi. Kannski heldurðu að ég sé að horfa á þig og finnur dálítið til þín.Ég er reyndar að bíða eftir þér, já, en ég er ekki að beinlínis að horfa á þig. Ég er búin að því. Ég er meira að bíða eftir að þú horfir á mig. Nú þú. Það er réttlæti. Ég vil að þú horfir á mig. Ekki af því að ég eigi neina sérstaka drauma um þig heldur af því að þú átt leið hjá á heppilegum tíma og flestir aðrir eru á bíl. Horfa þessvegna aldrei á mig. Ungir menn eiga að horfa á fallegar stúlkur. Þannig hefur það alltaf verið segja þeir.

En þú horfir ekki heldur þótt þú farir þér hægt. Horfir aldrei beinlínis á mig. Lítur bara til mín í svip og gengur svo framhjá. Sperrtur eins og hani.

Einu sinni kallaði ég til þín af því ég sá að þú misstir veskið þitt. Þá stoppaðir þú og horfðir aðeins á mig, pínulítið. Ekki samt lengi. Þú sagðir takk. Svo bara fórstu.

Ég hélt að ég gæti kannski náð athygli þinni með því að sýna þér betur hvað ég er falleg. En nú, þegar ég sit nakin á svölunum er engu líkara en að þú forðist beinlínis að líta upp. Og ert hættur að veifa.

Mér er satt að segja að verða svolítið kalt.

Landnemaljóð

Í leit minni að heimkynnum
hef ég sleppt bæði dúfum og hröfnum
sem alltaf sneru aftur
tómnefjuð
og enn rekur bát minn fyrir straumum.

Ég játa að ég treysti hröfnum betur en dúfum,
kann betur við ís og sand en ólívugreinar
og enginn flóttamaður er ég
heldur landnemi.

Ekki veit ég
hvort hrafnar sveima
yfir fjallinu hvíta í austrinu
en hitt hef ég séð;
atað dúfnasaur
er torg hins himneska friðar.

Köttur

Hugur minn mjúkþófa köttur
þræðir orðleysið í augum þér
og þó.

“Þögnin er eins og þaninn strengur”.
Leikur vængjað barns
að örvum eldbogans.

Morgunbæn

Svo morgnar um síðir
svo á jörðu sem á himni
því það er líparít
og það er stuðlaberg
og það er rauðamöl
og það ert þú.
Sett í skúffuna í mars 2003