Ljóð handa Hlina

Konungsson hvert ertu að fara?
hvers viltu leita?
Hvert mun nú rekkja þín renna?
rökkvar í skógi.
Blíðlega sungu þér svanir
svefnhöfgi þunga.

Skar ég þér línur í lófa
ljáði þér tauminn.
Blóð þitt á böndunum þornað
blárra en augun þín græn.

Tengsl

Hún átti það til að standa óþægilega nálægt honum í strætóskýlinu jafnvel þótt þau væru þar bara tvö. Hann hafði á tilfinningunni að hún biði hans á hverjum morgni og þegar hann nálgaðist horfði hún beint í augu hans og brosti. Hún gekk aldrei neitt lengra en það en hann kveið því samt að hitta hana. Lengi vel lét hann sem hann sæi hana ekki.

Dag nokkurn kom þó að því að hann brosti hann á móti. Það var ekki stórt og geislandi fagnaðarbros, ekki beinlínis hlýlegt heldur. Hann gaf sig ekki á tal við hana, heldur kinkaði bara kolli og brosti sem snöggvast út í annað.

En þótt það væri bara örstutt bros náði það samt til augnanna og það gladdi hana ákaflega mikið.

Ljúflingur

Hvort ertu kráka í skógi
eða fiskur í hendi?

Hvít mjöll
á Miklubraut tímans.
Óskrifað ljóð.

Yndi í auga
er meðan varir

Er
meðan auga mitt kyssir
ylmjúkar varir.

Samt

Hjartsláttur sumars
þræðir einstigið
frá glötuðu sakleysi mínu
og aftur heim,
frostbitinn.