Í minningu strokuhests

Fyllir mitt geð af gleði
gröðum á skeið að ríða
bráðlátum fáki fríðum
flæðir þá blóð um æðar.

Því hafa sorgir tíðum sviðið mig síðan
folinn minn fjörugi, rauði flúði til heiða.

Alda aldanna

Þig er ég þreytt að trega
þögul, af hálfum huga
hendi ég máðum myndum.
Fráhvarfaöldunni
falin á vald.

Bundin á báðum höndum
blinduð af sjó og sandi
borin með falli að fjöru.
Minningin brennur
í brjósti mér enn.

Að skoða ský

Eins og fagurt ævintýr
um álfa, tröll og furðudýr
sem eilíft breytir blærinn hlýr
mér birtust skýin hvít

En veruleikinn víst er þó
minn vanda eykur regni og snjó
og hylur þoku skurð og skóg
hvert ský sem nú ég lít.

Ég aftur skýin skoðað hef
og skil það loks til fulls að ef
ég tálsýn kýs að trúa blind
hún tekur á sig nýja mynd.

Kennd

Eins og lamb að vetri borið
vekur hjartans dýpstu þrá
til að vernda það og hrekja
heimsins varga bænum frá
hefur snemmbær ástúð
snortið minnar blíðu gítarstreng
og snilli tær, hve fljótt mér tókst
að frysta þennan dreng.

Því hann ilmar eins og beitilyng
og bragðast líkt og gras,
og sérhver snerting hans er korn
í háskans stundaglas.
Því eðli mitt er varnarlaust
gegn vorsins mildu hönd
sem vekur líf af dvala
og leysir fossins klakabönd.