Flýgur í hring yfir haug
hugar við dögun og húm
ætis að eilífri leit.
Hrafn er minn hugur
og hungrar í þig.
Hvít svífur dúfa yfir dal.
Flytur hún lofgjörð um líf,
friðsemdar fegursta mynd.
Svæfir þín sála
mitt sársaukabál.
Flýgur í hring yfir haug
hugar við dögun og húm
ætis að eilífri leit.
Hrafn er minn hugur
og hungrar í þig.
Hvít svífur dúfa yfir dal.
Flytur hún lofgjörð um líf,
friðsemdar fegursta mynd.
Svæfir þín sála
mitt sársaukabál.
Heyrirðu hrísla
kynjalækinn hvísla
djúpir hyljir drekkja
þeim sem illa hann þekkja
en ef hann aðra okkar
að sér laðar lokkar
stiklum við á steinum
systir mín í meinum
og þegar fjárans fljótið
flæðir yfir grjótið
brúar þín blíða
ávallt strauminn stríða.
Aldrei hef ég orðið meir en aumra manna
lestarstöð í lífi hinna
lítilþægu vina minna.
Stundarkorn þeir staldra við en stökkva á fætur
sjái þeir koma svín sem getur
smjaðrað meir og logið betur.
Feitan gölt ef finnur þú á flæðiskeri
gefirðu honum líf og læri
leggurðu um eigin háls þinn snæri.
Lækurinn sprækur
flæðir þér upp fyrir brækur
Togar þig árinna sog
en augu þín loga
Skil það svo vel að vilja
velkjast í hyljum
brúin sem byggðum við fúin
-og draumurinn búinn
Fyllir mitt geð af gleði
gröðum á skeið að ríða
bráðlátum fáki fríðum
flæðir þá blóð um æðar.
Því hafa sorgir tíðum sviðið mig síðan
folinn minn fjörugi, rauði flúði til heiða.