Ljóð handa Megasi

Ást, þjást, brást,
„afsakið mig meðan ég æli“

Hvort það var hnífstunga í bakið
eða blaut tuska í andlitið
bíttar ekki baun.
Aðalmálið að það sé
myndskreytt
umbreytt
afleitt.

Leitt af hinu afleita
fráleita
háleita

og ég sem leitaði hátt og lágt
gerði elskhugann sjálfan út af örk
að leita þín við ystu mörk
ljóðaheims
andlegs seims
eyðimörk.

Og kannski er það ekki bara
fatamorgana á flæðiskerinu
ég held hún sé loksins fundin
þessi húfa sem hæfir derinu.

Kollsteypa

Þetta er hugsað sem tölvuljóð. Þegar lesandinn sér ljóðið fyrst eru engin bandstrik í því. Þegar aðgerð er valin, skiptir tölvan einhverjum þeirra orðastrengjum sem eru með bandstriki. Valið er af handahófi hverju sinni. Ljóðið er á svörtum grunni, öll samsett orð gul, allir slitnir orðastrengir rauðir, öll hin orðin græn. Bandstrikin eru svört og sjást því ekki. Halda áfram að lesa

Af því

Af því að augu þín minna í einlægni,
hvorki á súkkulaðikex
né lokið á Neskaffikrukkunni,
þótt hvorttveggja sé mér hjartfólgið.
Af því að fjöll munu gnæfa,
fossar dynja,
og öldur gæla við fjörugrjót
látlaust, án blygðunar
og skeyta lítt um nýja strauma.
Af því, mun ég gala þér seið
við eyglóar eldroðinn sæ
og hafdjúpan himin.

 

Höll Meistarans

Vorverkin hafin.
Einhver hefur klippt runnana í dag.

Geng hrörlegan stigann,
snerti varlega hriktandi handriðið.
Les tákn úr sprungum í veggnum
og gatslitnum gólfdúknum.

Hér, bak við spónlagða hurð sem ískrar á hjörunum,
er Mark Antony til húsa.

Banka varlega,
hrollur við hnakkann;
“mér var sagt að mæta til viðtals herra”.

Hér, í satinklæddri dyngju sinni
skreyttri kertaljósum og gullofnum púðum,
ólar hann ódælar stúlkur niður á flengibekk,
á meðan konan á neðri hæðinni
hirðir afklippta birkisprota úr garðinum.

Þrællinn

Þrælslund í augum
en fró í hjarta.
Þvær gólfið í dyngju Gyðjunnar
á hnjánum með stífaða svuntu.
Fær kannski að lakka neglur hennar að launum
eða smeygja háhæla skóm á fíngerða fætur.

Kveður auðmjúklega
með kossi á hönd Gyðjunnar.
Snýr aftur til embættis síns
íklæddur magabelti og netsokkum
undir jakkafötunum.
Reiðubúinn að takast á
við þrældóm hvunndagsins.