Kannski var sumarið andvaka.
Friðsemdin græn
bylti sér veturlangt undir kvíðboga mínum
og blæfrjóir vorlaukar
sáðu væntingum í erfiði mitt.
Ekki skóf yfir spor mín þennan vetur
en hafi mér skrikað fótur
sjást þess merki í langþreyttri moldinni.
Kannski var sumarið andvaka.
Friðsemdin græn
bylti sér veturlangt undir kvíðboga mínum
og blæfrjóir vorlaukar
sáðu væntingum í erfiði mitt.
Ekki skóf yfir spor mín þennan vetur
en hafi mér skrikað fótur
sjást þess merki í langþreyttri moldinni.
Þér hef ég sungið atkvæði
fremur en ákvæði,
margvísur
umfram fávísur
og niður valkvæðanna lék undir
þá sjaldan að háttvísur komust á efnisskrá.
En viðkvæði mitt
sem áður varnaði þér vöku
hefur í huga þér breyst í lævísur
og varnar þér svefns.
Þegar rokkarnir voru þagnaðir
spann ég söguþráð á hljóðsnældu
og fléttaði þætti í símalínu.
Þegar rauðir þræðir röknuðu úr vef mínum
sló ég örlög mín á lyklaborð
og tengdi vef veraldarinnar.
Þegar nornir tjölduðu sali mína
nýju klæðum keisarans
birti ég nekt mína á breiðtjaldi.
Af sjálfsdáð hef ég dregið þær línur
sem varða leiðina,
á stundum skrifað undarlegustu hendingar
og hlutskipti mitt veltur á því einu
hvernig hlutnum er skipt.
Ekki sakna ég þagnarinnar
sem skriðin úr hugskoti nágrannans
hvískraði ógnarþulur
við óvarinn glugga bernsku minnar.
Næturlangt.
En spurði einskis.
Kvöldum saman
hef ég sofnað við nið tölvunnar
vaknað við gemsa nágrannans
handan veggjar.
Þögnin horfin úr lífi mínu;
nú set ég reglurnar sjálf
og hef spunnið blekkingarvef fyrir gluggann.
Sjaldan hafa þeir bræður Gáski og Háski
vikið frá mér spannarlengd
á hlaupum mínum niður stigann.
Skottast ýmist á eftir
og skella mér á rass
flissandi,
eða ryðjast fram fyrir
og búast til að bregða fyrir mig fæti.
Á uppleiðinni fer minna fyrir þeim,
skjögra mér að baki,
þunglamalega
og nöldra iljum
við gólfdúkinn.
Hvíld er það
mikil ósköp.
Og þó bíð ég þess alla leiðina
að annar þeirra
glefsi geðvonskulega í hæl mér.