Elena

 

Ég þýddi þennan texta fyrir Begga bróður minn. Síðasta erindið er til í tveimur útgáfum, poison arms og broken arms. Mér finnst poison gefa ljóðinu merkingarauka sem ég reyni að undirstrika í þýðingunni. Lesendur geta svo skemmt sér við að giska á hvaða karlmannsnafn ég hefði notað í stað Angeles ef ég hefði þýtt textann fyrir sjálfa mig. Halda áfram að lesa

Ryk

Rykið hefur gert sér hreiður undir rúmi mínu,
gotið ljósgráum rykhnoðrum
sem fjölga sér stöðugt.

Stundum skríður það undir sængina
í leit að æti.
Kitlar nasirnar
Ertir hálsinn.
Dregur úr koki mér
máða vini,
ósögð ástarorð,
hálfköruð ljóð
og fóðrar unga sína.

Af og til
sæki ég kúst
og sópa rykhreiðrinu undan rúminu.

Í þetta sinn
hef ég sópað því undir mottu.

Dögun

Losa auglokin rólega,
bara litlar rifur
rétt til að átta mig á deginum.
Gráleit rönd við gluggabrún
seytlar undir rúllutjaldið.

Of snemmt.
Of dimmt.
Augnlok síga,
límast saman á ný.

Nei! ekki of snemmt,
ekki í dag.
Kippi augnlokunum upp með smelli,
dreg frá glugganum.

Hvítur snjór hefur fallið
á óræktina í garðinum.
Skefur yfir gangstéttina
heim að húsinu.

Fel svitastokkinn náttkjólinn
undir koddanum,
breiði teppi yfir rúmið.
Tilbúin
að takast á við daginn.

Flísar

Undarlegt hvað sumt fólk hefur góða sjón
og það með bjálka skagandi út úr auganu.
Bjálka sem ná alla leið inn að rúmgafli hjá manni.
og rekast í tærnar á meðan maður sefur.

Suma daga vaknar maður
með flísar í tánum
og þorpsbúann sitjandi á rúmstokknum
rekandi bjálkann í rúmgaflinn,
með flísatöng á lofti
til þjónustu reiðubúinn.

En þrátt fyrir alla þessa hjálpsemi
hefur enginn reynt
að plokka myrkrið undan sænginni.

Gróður

Sjáðu grösin í garði nágrannans.
Saklausu, litlu kærleiksgrösin
sem teygja sig í fagurgrænni gleði í átt til sólar
og sjúga þyrstum rótum
svala úr frjósömum sverðinum.

Ó, hve þau dafna vel í þessum garði,
snyrt eftir þörfum og nærð á hverju sumri
mönnum til yndis.

Í minni lóð vex aðeins
gulur sinuflóki.
Svo rennblautur af gamalli rigningu
að hann brennur ekki einu sinni
þótt eldur sé borinn að honum.
Og þó er það eina leiðin til að uppræta hann.

Á lóðinni minni
vaxa puntstrá með haustinu.
En hver kærir sig
um þessháttar fegurð?