Að skoða ský

Eins og fagurt ævintýr
um álfa, tröll og furðudýr
sem eilíft breytir blærinn hlýr
mér birtust skýin hvít

En veruleikinn víst er þó
minn vanda eykur regni og snjó
og hylur þoku skurð og skóg
hvert ský sem nú ég lít.

Ég aftur skýin skoðað hef
og skil það loks til fulls að ef
ég tálsýn kýs að trúa blind
hún tekur á sig nýja mynd.

Kennd

Eins og lamb að vetri borið
vekur hjartans dýpstu þrá
til að vernda það og hrekja
heimsins varga bænum frá
hefur snemmbær ástúð
snortið minnar blíðu gítarstreng
og snilli tær, hve fljótt mér tókst
að frysta þennan dreng.

Því hann ilmar eins og beitilyng
og bragðast líkt og gras,
og sérhver snerting hans er korn
í háskans stundaglas.
Því eðli mitt er varnarlaust
gegn vorsins mildu hönd
sem vekur líf af dvala
og leysir fossins klakabönd.

Frostþoka

Frostþoka þagnar
lagði hemi
Lagarfljót augna.

Bræddi þó bros
svo flæddi
yfir bakkana báða,
hrímþoku hrjáða.

Skógar hafa brumað að vetri
svo bjarkirnar kulu.
Auga fyrir auga,
bros fyrir bros,
þögn fyrir þulu.

Í tifi nýrrar klukku

Ég vaknaði í morgun, við hljóm nýrrar klukku
sem ekki hefur áður slegið í húsi mínu.
Fagnandi leit ég í dimmbláa skífuna og spurði:
„Hvenær klukka mín,
hvenær mun tif þitt hljóðna
og þögnin ríkja á ný í húsi mínu?“

Í þeirri dimmbláu skífu sá ég engan vísi
aðeins svarta miðju og tóma,
aðeins tóma miðju og hring,
í húsi mínu.

En í tifinu hljómaði svarið,
ekki sorgbitið,
ekki ástríðufullt,
aðeins blátt-áfram staðreyndatif;
bráð-um, bráð-um.

Sett í skúffuna í ágúst 1999