Ljóð handa góðærishórum

Aldrei hef ég orðið meir en aumra manna
lestarstöð í lífi hinna
lítilþægu vina minna.

Stundarkorn þeir staldra við en stökkva á fætur
sjái þeir koma svín sem getur
smjaðrað meir og logið betur.

Feitan gölt ef finnur þú á flæðiskeri
gefirðu honum líf og læri
leggurðu um eigin háls þinn snæri.

Í minningu strokuhests

Fyllir mitt geð af gleði
gröðum á skeið að ríða
bráðlátum fáki fríðum
flæðir þá blóð um æðar.

Því hafa sorgir tíðum sviðið mig síðan
folinn minn fjörugi, rauði flúði til heiða.

Alda aldanna

Þig er ég þreytt að trega
þögul, af hálfum huga
hendi ég máðum myndum.
Fráhvarfaöldunni
falin á vald.

Bundin á báðum höndum
blinduð af sjó og sandi
borin með falli að fjöru.
Minningin brennur
í brjósti mér enn.