Sonardilla

Kalda vermir nótt í hvílu minni
sem kúri pysja smá í holu sinni,
breytir hverju böli í sælu að finna
hjúfra við mig hlýja vangann þinn.
Alla ævi mun í myrkri skína
sólargeisli sængina undir mína
meðan ég á litla lundann minn.

Sett í skúffu í nóvember 1992

Ástarljóð

Nei.
Þú líkist sannarlega engu blómi.

Ekkert sérlega fallegur.
Ekki ilmandi
með stórum litríkum blómum.
Nei.

Þú ert öllu heldur kínverskur graslaukur.
Dálítið tætingslegur jafnvel.
En grænn.
Og ferskur.
Og bragðið sérstakt.
Milt.

Sætbeiskur keimurinn situr eftir.
Lengi.

Þegið

Ekki hef ég saknað þín
öll þessi ár
þótt eflaust
brygði andliti þínu fyrir

í draumi um ylhljóða hönd
lagða á öxl
þegar haustfuglar
hópuðust til farar.

Lítið hef ég saknað þín
og ég játa

kreppta hnefa
hvikul augu
og fyrirheit umfram væntingar.

En hér er ég mætt
til draums eða veruleika

og ég opna lófana,
loka augunum
legg höfuð mitt í keltu þína

og segi „jæja“.

Álög

Hér er fjöllin líkust svörtum sandhrúgum, flöt að ofan eins og krakki hafi klappað ofan á þau með plastskóflu og ná alveg fram í sjó. Stundum sér maður endur á vappi uppi í fjalli þar sem fjaran er engin. Þorpið kúrir undir fjallinu, sveipað grárri móðu hversdagsleikans jafnt sem móðu þokunnar. Hér er ljótt. Halda áfram að lesa

Ummyndun

Þú varst mér allt, þú varst mér lífið
sólarskin í daggardropa
logn í regni, rökkurblíðan
haustið rautt á greinum trjánna
tungl í myrkri, mönnum ofar
falskur eins og fjallabláminn