Hér er fjöllin líkust svörtum sandhrúgum, flöt að ofan eins og krakki hafi klappað ofan á þau með plastskóflu og ná alveg fram í sjó. Stundum sér maður endur á vappi uppi í fjalli þar sem fjaran er engin. Þorpið kúrir undir fjallinu, sveipað grárri móðu hversdagsleikans jafnt sem móðu þokunnar. Hér er ljótt.
Í frystihúsinu er sami gráminn. Stórvaxin stelpa stendur við vélina með lærin í skónum og þúsund þorskar á færibandinu þokast nær. Plokka hringorma úr þorskflökum, án verulegs áhuga. Ég er klaufsk. Sé ekki ormana og finn ekki beinin.
Sit á kaffistofunni og hlusta á endalausar umræður um fisk. Vangaveltur um hvort sé nú áhugaverðara að verka ýsu eða karfa. Ég reyni að brydda upp á umræðum um menningu og listir en þau horfa á mig með svip sem gefur til kynna að „fræðingi“ að sunnan væri hollara að reyna að ná upp bónsunum en að velta sér upp úr óarðbæru fikti afætanna í Reykjavík. Svara mér engu en snúa talinu aftur að vinum sínum, þorskunum.
Maðurinn er það sem hann gerir. Sá sem lifir og hrærist í þorski breytist í þorsk. En vitsmunalíf mitt þrífst ekki meðal þorska. Kannski áhrifin á mig verði líkamleg? Finn hvernig lendar mínar taka smám saman að hreistra. Mér er að vaxa sporður. Ég sem er skógarvera. Hef alltaf unað mér best í birkilundum og á bökkum smálækja en botna ekkert í köldum heimkynnum hafmeyja.
En verulekinn verður ekki umflúinn og einn daginn vakna ég með stóran blágrænan sporð sem fer mér illa. Fólkið í frystihúsinu tekur ekki eftir nývöxnum sporði mínum og hinar sjávarverurnar hundsa mig þegar ég leggst til sunds á kvöldin. Alla nóttina hrekst ég með sjávarstraumum og að morgni brölti ég örmagna upp í fjöruna við rætur fjallsins og fæli endurnar þegar ég skreiðist í átt til fyrstihússins.
Nei. Ég á ekki heima hér. Klárlega ekki. Þrái græna angan skógarins, hata þetta endalausa haf. Vil ekkert frekar en að komast héðan burt og það eigi síðar en í hvelli.
Og þó.
Og þó hef ég séð drenginn flaka fallega grálúðu, ástúðlega líkt og væri hún á lífi. Horfi á gullinn dún á brúnum handleggjum og fylgist með þegar hann rennir hnífnum fimlega eftir vöðva fisksins. Sé hvernig hann flettir hvítum fisknum frá beinunum, af sömu ástríðu og fiðluleikari beitir boga.
Og ég leggst undir hníf hans. Finn kalt blaðið smjúga undir hreistrið og renna eftir sporðinum endilöngum, fletta fisknum frá beininu og leysa mig úr álögunum. Aftur.
——-
September 1994