Birta

Evukvæði

Birta

Ljóð handa Job

Og hvað hélstu eiginlega Job minn
að guðdómurinn væri?
ódæll unglingur
sem í kröfu sinni um óskilyrta ást
reynir stöðugt að ganga fram af þér?
Datt þér þá aldrei í hug að senda hann inn í herbergið sitt
og fá vinnufrið fyrir honum dálitla stund?

Eð hélstu kannski
að guðd´+omurinn vær
ofbeldishneigður maki
og hékkst utan í honum af því þú þorðir ekki annað,
þorðir ekki að vera einn?

Og nú, þegar þú fagnar betri tíð
hvort treðurðu þrúgur þrælsóttans
eða teygar vín þakklætisins?
Hvort gerir þú Job? Hvort?

Vissirðu þá ekki Job minn góður
að guðdómurinn leggur engar gildrur
fyrir börn sín
og þeir sem troða þrúgur hugrekkisins
á meðan hann bregður sér af bæ,
-án ótt við einsemd
-án vonar um hjálp
þeir einir hafa tök á því að bjóða guðdómnum á fyllirí
þegar hann loksins snýr heim.

Því guð tekur ekkert frá þér Job
og hann gefur þér aldrei vín
aðeins þrúgur,
en fáist hann til að skála við þig
verðurðu í sannleika ölvaður
af því eina víni sem er þess virði að troða þrúgurnar;
þakklæti Job.
Þakklæti.
Því jafnvel ástæðulaust þakklæti
er betra en allsnægtir án þess.

Og þessvegna Job
aðeins þess vegna treð ég þrúgurnar,
þrúgur áræðis,
þrúgur einlægni,
-án ótta við einsemd,
-án vonar um hjálp,
ef svo ólíklega skyldi fara
að dag nokkurn
eigi guðdómurinn leið hjá húsi mínu.

Leit

Það liggur enginn vegur að enda regnbogans
sagðir þú

og í þeirri sælu trú
að regnboginn væri
engin brú til betri heima,
aðeins ósnertanlegt sáttmálstákn almættisins
við dauðhreinsaðar sálir mannanna,
hættir þú leitinni
og sóttir um vinnu
við holræsakerfi borgarinnar.

En þú veist ekki
það sem ég veit.

Litir regnbogans búa
í daunillri olíubrák í höfninni.

Sírennsli

Ást mín á þér er löngu orðin
eins og sírennslið í klósettinu
aðeins rólegt mal,
hluti af tilverunni og
truflar mig ekki lengur.Á þó til að angra næturgesti
sem brölta bölvandi fram úr og sturta niður
í von um frið.

Án árangurs
og kveðja vansvefta að morgni.

Ferð

Stefnuna þekkjum við
og ljósastikur meðfram veginum varða leiðina.
Þó vekur ugg
þessi umferð á móti.

Við stýrið, þú
og ég forðast að segja upphátt
það sem ég les úr kortinu.

Nú er ekkert nema handbremsan
á milli okkar lengur.

Sett í skúffuna í nóvember 2001

Ljósmyndarinn

Hann stendur við gluggann og horfir á leiki krakkanna. Strákarnir á körfuboltavellinum, stelpurnar verpa eggi og hoppa í teygjutvist og snúsnú. Litlu börnin leika sér hinum megin við skólann en hér er leiksvæði unglinganna. Ár eftir ár hefur hann staðið við gluggann og fylgst með stelpunum hoppa, hlaupa og losa sand úr skónum sínum á góðvirðrisdögum. Nú eru þær orðnar stórar. Komnar með ávöl brjóst og kvenlegar mjaðmir. Fallegar stelpur, margar hverjar en Sóley ber af þeim, tvímælalaust. Hún er ekkert barn lengur, hún er tilbúin, hugsar hann. Hann tekur myndavélina og gengur út á tröppurnar. Halda áfram að lesa