Ljóð handa Job

Og hvað hélstu eiginlega Job minn
að guðdómurinn væri?
ódæll unglingur
sem í kröfu sinni um óskilyrta ást
reynir stöðugt að ganga fram af þér?
Datt þér þá aldrei í hug að senda hann inn í herbergið sitt
og fá vinnufrið fyrir honum dálitla stund?

Eð hélstu kannski
að guðd´+omurinn vær
ofbeldishneigður maki
og hékkst utan í honum af því þú þorðir ekki annað,
þorðir ekki að vera einn?

Og nú, þegar þú fagnar betri tíð
hvort treðurðu þrúgur þrælsóttans
eða teygar vín þakklætisins?
Hvort gerir þú Job? Hvort?

Vissirðu þá ekki Job minn góður
að guðdómurinn leggur engar gildrur
fyrir börn sín
og þeir sem troða þrúgur hugrekkisins
á meðan hann bregður sér af bæ,
-án ótt við einsemd
-án vonar um hjálp
þeir einir hafa tök á því að bjóða guðdómnum á fyllirí
þegar hann loksins snýr heim.

Því guð tekur ekkert frá þér Job
og hann gefur þér aldrei vín
aðeins þrúgur,
en fáist hann til að skála við þig
verðurðu í sannleika ölvaður
af því eina víni sem er þess virði að troða þrúgurnar;
þakklæti Job.
Þakklæti.
Því jafnvel ástæðulaust þakklæti
er betra en allsnægtir án þess.

Og þessvegna Job
aðeins þess vegna treð ég þrúgurnar,
þrúgur áræðis,
þrúgur einlægni,
-án ótta við einsemd,
-án vonar um hjálp,
ef svo ólíklega skyldi fara
að dag nokkurn
eigi guðdómurinn leið hjá húsi mínu.

Share to Facebook