Bónorðsbréf

Lánsamlegt er að ljúka dotorsprófi
lipur og fín er vörn þín vinur góður
menningarviti og Morkinfræðasjóður
mælskur en beitir þófi í besta hófi.

Þér vil ég klappa tífalt lof í lófa
legg ég svo á að happ þig elti og hróður
aukist með ári hverju og andans móður
að endingu ber þér spurn úr hófi grófa;

hvort mærin ljúf þín bíði, björt og hrein
blíðlynd trutildúfa, dáfríð píka
engill með húfu, siðprúð auðnarhlín?

Og verði ég þrjá um fertugt ennþá ein
(ætla ég þá þú sért að pipra líka)
hvort Morkinskinna má ég verða þín?

Internet

Ef mig þjakar angurs húm
og einsemd fyllir mitt tómarúm
þinn leikur huggar ljúft og blítt
því allt er nú sem orðið nýtt.

Ef þreyttur og fúll þú þarfnast mín
þegar í stað ég kem til þín
um internetsins órætt land
yfir kaldan eyðisand.

Án orða

Hæglát læðist hugsun mín
hljóð sem kattarþófi
og engu leyna augu þín;
orð eru best í hófi.

Okkar litla leyndarmál
líkist spenntum boga.
Undir niðri eins og bál
ástríðurnar loga.

 

Orðjurt og auga

Við ljósamörk skáldkvöldsins skelfur eitt ljóð
sem skothending nátttíðar deyðir
mót auganu orðkrónu breiðir
sem óðjurt mót heiðsólarglóð.

En náttmáni skín bak við skýslæðutröf
við skuggamörk þokunnar sefur
og ljóðaugað líklæðum vefur
sem lifi við kveðstafa gröf.

Ljóstillífsljóð
lifir sem sáðjarðar gróður
fagnar við augnsólar yl
orðjurtin góð.

Kvæði handa skúffuskáldum

Í merkri bók er sagt að sönnum þyki
það sælla vera að gefa en að þiggja
en allar mínar sögur ennþá liggja
oní skúffu í haug og safna ryki.

Á meðan ég hef skúrað, skeint og þvegið,
skemmti ég mér við að binda í kvæði
líf mitt; sælu, sorgir ást og bræði
og síðan hefur það í möppum legið.

Ung ég þóttist undragáfu hafa
og áleit það sem telpukrakki dreyminn
að ættu ljóð mín erindi við heiminn
en eitthvað þóttist heimurinn í vafa;

það virtist enginn af þeim ýkja hrifinn
og hentug reyndist skúffan fyrir skrifin.