Ljóðasíminn

Ég hef velt talsvert fyrir mér hugmyndinni um gagnvirkar bókmenntir, þ.e.a.s. bókmenntir sem gefa lesandanum færi á að hafa áhrif á útkomuna. Einn möguleikinn væri ljóðasími sem byði upp á valkosti um nokkrar ólíkar útgáfur af sama ljóðinu. Maður hringir í tiltekið númer og nær sambandi við símsvara: Halda áfram að lesa

Köttur

Hugur minn mjúkþófa köttur
þræðir orðleysið í augum þér
og þó.

“Þögnin er eins og þaninn strengur”.
Leikur vængjað barns
að örvum eldbogans.

Í orðastað frú Gamban

Út í heiminn hófst þín ferð frá húsadyrum.
Fróða Bagga fylgdir sporum
faldir þig í klettaskorum
þegar orkar urðu á þínum vegi.

Og eins þótt lítill fugl á laufgum teigi
ljóð sín kvaki beint frá huga þínum
og allt hið besta af þér jafnan segi
vanda hvern ég veit hjá drengnum mínum.

Og þótt þín sál í söngvum trjánna hljómi
sakna ég þín á hverjum degi, Sómi.

sett í skúffu sumarið 2003

 

Hvatvísur

Þú kalla mátt það hvatvísi að hafa
kjark til þess að standa eða falla
en heigulshátt ég helberan það kalla
að hjakka í gömlu fari af tómum vafa.

Það hefur enginn á þig ljótu logið
og líf þitt hefur flotið hjá í draumi
en ég hef alltaf staðið móti straumi,
stokkið fram af brún og oftast flogið.

Þótt kunni ég ekki forráð mínum fæti
og fyrirhyggju mest í hófi brúki,
og þótt úr einu verki í annað rjúki
með árangri ég fyrir ganið bæti.

Það verður sjaldan varanlegur skaði
þótt vanhugsaða ákvörðun ég taki.
Og brenni ég mér allar brýr að baki
ég byggi aðrar traustari með hraði.