Leysingar

Myrkar skríða nætur
úr skotunum
gera sér hreiður í snjóruðningum

og dagarnir
skoppa út í bláinn.

 

Síðar breytti ég þessu ljóði en ég held að fyrri gerðin sé betri. Seinni gerðin er þannig:

Myrkar skríða nætur
úr skotunum
gera sér hreiður í snjóruðningum;
þar hafa dagarnir sofið.

Í mjóum taumum
renna þeir út á götuna
leystir úr viðjum
skoppa þeir fagnandi
út í bláinn.

Borg

Ljósastauraskógur.
Malbikaður árfarvegur.
Málmfiskar malandi af ánægju
í röð og jafna bilin
synda hratt milli gljáandi ljósorma
undir skini glitepla.

Líf.

Fjarri einsemd og myrkri.
Fjarri bílakirkjugarði
og ónýtum gaddavírsgirðingum.
Fjarri mýrarflákum,hrossaskít
og bilaðri rotþró.
Regnbogabrák í vætu bensínstöðvarplansins.
Ilmur af borg.

Hingað liggja allar leiðir.

 

Ljóð handa fylgjendum

Nýjum degi nægir
neyð er guðir gleyma.
Geta og þrek ef þrýtur
þín er höfnin heima
hlassi þessu þungu
þúfa ef viltu vetla
væta jarðar verða
varmi, svali og selta.

Gegnum regnið gráta
gagnast þeim er þagna
þegar þurrir dagar
þægilegir láta
léttra hlátra hljóma
hlýjan blæinn bera
Birtu að heitu hjarta
heims þá ljósin ljóma.

Fjallajurt

Ég er vaxin upp í hrjóstri, harðgerð, lítil fjallajurt
sem lifði af þegar vindar feyktu vonarblómum burt.
Það vildi enginn gróðursetja í garði sínum rós
sem aldrei bað um aðhlynningu, aðeins regn og ljós.

Þó að viðkvæmari jurtir visni fljótt í höndum þér
og gleðin sé það eina sem þú gefið hefur mér,
eins og blóm sem þráir birtu, hefur Birta saknað þín
og breiðir móti geislum þínum ljósþyrst laufin sín.

Þótt þú hlúir engu blómi, enn í hjarta mér þú býrð
ég teygað hef úr ljósi þínu lita minna dýrð.
Og varnarlaus ég heldur vildi lifa fyrir þig
en hult í skjóli eikartrés, sem skugga varpi á mig.

Haustljóð

Bera sér í fangi
blánætur
myrkrar moldar hvíld.
Ber munu þroskast
en blóm hníga
föl í jarðar faðm.

Eyða munu veður
veikum grösum
líknar sverði sól.
Svo er mín verund
vindum barin.
Und kyssir auga þitt.