Fabla fyrir Elías

Beið uns veðrinu slotaði.

Og beið.

Á fertugasta degi kom hann fljúgandi yfir hafið.
og benti á glottköttinn
standandi á haus
út við sjóndeildarhringinn.

Þó hafði hann blaðgrænu í augum
og færði mér ólívuviðargrein.

 

Hamingjan

Ég hef hitt hamingjuna á förnum vegi og séð að hún er græn eins og brumknappur bjarkar og sveigjanlegri en pítonslanga. Og svo hljómar hún dálítið eins og fíngert regn sem fellur í smátjörn í logni og hún ilmar líkt og blóðberg, eplakaka og koddaver unglingspilts.

En hvernig hún bragðast, það veit ég ekki.

Nakið

Týndi víst glórunni
einhversstaðar milli drauma
eða kannski er hún föst bak við eldavélina,
gæti hafa lagt hana til hliðar á meðan ég hrærði í sósunni.
Ég sakna hennar ekkert sérstaklega, það er ekki það
en þú veist hvernig tískan er
svo ef þú sérð hana,
þá kannski kemurðu henni til skila.

Hún er svona glær,
minnir mig,
og með dálítið skarpar brúnir.

Ljóð handa Hlina

Konungsson hvert ertu að fara?
hvers viltu leita?
Hvert mun nú rekkja þín renna?
rökkvar í skógi.
Blíðlega sungu þér svanir
svefnhöfgi þunga.

Skar ég þér línur í lófa
ljáði þér tauminn.
Blóð þitt á böndunum þornað
blárra en augun þín græn.

Saga handa prinsessunni sem er með hinn fullkoma kjól á heilanum

Einu sinni var prinsessa. Hún var galin. Hún var með kjóla á heilanum og stór hluti dagsins fór í að skoða kjóla, máta kjóla, afskrifa kjóla sem henni líkuðu ekki, reyna að þröngva kjólum sem hún var hrifin af en pössuðu henni ekki upp á systur sínar og reyna að fá saumakonu hirðarinnar til að breyta kjólum þannig að þeir féllu henni betur í geð. Og það var ekki nóg með að hún væri með kjóla á heilanum, hún hafði líka svo hörmulegan smekk og hún gerði sér m.a.s. grein fyrir því sjálf og klæddist þessvegna sjaldan því sem hún helst hefði viljað þótt hún gæti auðveldlega fengið allt sem hún benti á. Halda áfram að lesa