Viðeigandi refsing fyrir fjárglæframenn

Loksins var einhver handtekinn. Loksins eygir almenningur von um einhver verði látinn svara til saka. Jibbýkóla! fyrir réttlætinu. Sumir óska Hreiðari Má og öllum hans líkum beint í steininn upp á brauð og vatn og það er svosem ósköp skiljanlegt að þyrsta eftir réttlætinu.

Hinsvegar er það ekkert lögmál að fangavist þjóni réttlætinu. Hugmyndin á bak við fangelsi er sú sama og á bak við útlegðardóma; að sá sem ekki er hæfur þjóðfélagsþegn, eigi ekki rétt á að taka þátt í þjóðfélaginu. Það er rökrétt að svipta hættulega menn frelsi sínu eða úthýsa þeim úr mannlegu samfélagi. Ofbeldismaður er líklegur til að skaða annað fólk, ergó við komum í veg fyrir að hann hitti annað fólk.

En eru braskarar og stórþjófar svo hættulegir að það sé ástæða til að hafa þá í fangelsi? Það get ég ekki séð og finnst ekkert unnið við að stinga fjárglæframönnum og vitorðsmönnum þeirra í steininn.

Í fyrsta lagi þjónar það ekki þeim tilgangi að koma í veg fyrir glæpi. Fangavist getur komið í veg fyrir ofbeldisverk á meðan maðurinn situr inni, en hún getur ekki komið í veg fyrir fjármálamisferli. Menn geta vel stundað viðskipti þótt þeir sitji inni og það er ekki bannað. Dæmi eru um að menn hafi stundað fíkniefnaviðskipti í gegnum hleraðan síma á Litla Hrauni. Við skulum athuga að fangaverðir eru ósköp venjulegir hestamenn á Eyrarbakka. Hlutverk þeirra er að gæta þess að fanginn fari ekki burt og þótt póstur sé yfirfarinn er ekki hægt að ætlast til þess að venjulegir fangaverðir eða löggur botni eitthvað í bókhaldi og viðskiptaskjölum í fórum fanga eða pappírum sem þeir senda frá sér.

Í öðru lagi munu þeir ekki koma út sem betri menn. Betrunarvist í fangelsi getur komið ógæfumanni á lappirnar en á Íslandi er ekki boðið upp á betrunarvist heldur aðeins refsivist. Þó svo væri þá getur betrunarvist kannski hjálpað mönnum að hætta að nota vímuefni og komið þeim af stað í skóla eða vinnu en hún getur ekki læknað siðblindu.

Í þriðja lagi yrði refsingin ekki sú niðurlæging sem margir álíta. Fangavist myndi ekki eyðileggja mannorð þeirra innan síns geira og þeir þurfa ekki á velþóknun almennings að halda. Nú segir einhver að tilgangurinn með fangavist sé ekki sá að betra menn heldur að refsa þeim og það er vissulega þungbært að vera sviptur frelsi sínu. Hinsvegar er stór hluti refsingarinnar sá að missa mannorð sitt, missa traust samfélagsins og ganga í gegnum þá niðurlægingu sem fylgir því að vera dæmdur til refsingar. Og það hversu þungbær sá hluti refsingarinnar er, fer nefnilega dálítið eftir félagslegum aðstæðum hins dæmda. Fangelsisdómurinn var mikil refsing fyrir Árna Johnsen, því svoleiðis nokkuð hendir þingmenn sjaldan og þykir skömm. Fyrir forhertan fíkniefnasala er fangelsisdómurinn sem slíkur hinsvegar ekki neitt rosalega niðurlægjandi. Það er viðurkennt innan hans félagahóps að það sé bara áhætta sem fylgi starfinu. Honum finnst auðvitað leiðinlegt að þurfa að segja mömmu sinni frá því en félagarnir klappa honum á bakið og bölva með honum, þeir eru sjálfir ýmist búnir að sitja inni eða reikna með að það geti komið að þeim. Það sama á við um pólitíska fanga, vistin sjálf er andstyggileg en það getur jafnvel orðið stöðutákn að hafa setið inni.

Í fjórða lagi þá yrðu skilaboðin til annarra skúrka aðeins þau að það kosti svo og svo langan tíma í grjótinu að stela svo og svo miklum pening einmitt vegna þess að þegar fangelsisvist verður norm hjá einhverri stétt manna, minnkar félagslegt refsigildi hennar. Ef 30 íslenskir bisnissmenn frá þunga dóma er hætt við því að það verði síðar á ævinni eins og hvert annað umferðarlagabrot á ferilsskránni.

Í fimmta lagi þá er hinn almenni borgari engu bættari þótt Hreiðar Már fái ekki að hitta konuna sína nema á sunnudögum og símtöl hans við börnin séu hleruð. Hefndarfýsnin hlakkar kannski í einhverjum í nokkrar vikur en það er skammvinn sæla.

Í sjötta lagi er fokdýrt að hafa menn í fangelsi. Það er hagkvæmara að dæma menn til að vinna venjulega launavinnu og borga af henni fullan tekjuskatt en að hafa þá á dagpeningum við að hugsa upp aðferðir til að komast í kringum lögin til að græða meira.

Og hvað þá? Hvernig á þá að refsa þessum mönnum ef ekki með því að loka þá inni? Mér finnst nú eiginlega hugmyndafæð löggjafans rannsóknarverkefni út af fyrir sig. Mér finnst að viðeigandi og rökrétt refsing fyrir fjárglæframenn væri bann við því að hafa nokkur afskipti af almannafé og bann við því að reka og eiga fyrirtæki eða hlut í þeim. Í svæsnustu tilvikum mætti það gilda til lífstíðar. Ég efast um að nokkur lagastoð sé fyrir slíkum dómum en væri hugsanlega hægt að binda fangavist þessháttar skilyrðum? Eða bjóða einhverskonar dómssátt? Mér finnst líka vel koma til greina að dæma þá til einhverskonar enduruppeldis en það gæti orðið dýrt þar sem viðeigandi prógramm er ekki til.

Ég er þess nokkuð viss að ef viðskiptajöfrum og bankablókum yrði boðið að sitja inni eða missa öll sín tækifæri til að setja fólk og fyrirtæki á hausinn, myndu þeir velja fangelsið. Og miklar mega sakir Hreiðars Más vera til þess að hann verði meiri ógn við kollega sína ef hann fær vinnu í Kassagerðinni en við samfélagið allt með því að plotta og plana á Kvíabryggju, í Bitru eða jafnvel á Litla Hrauni. Þessir menn eru braskarar og drulluhalar, ekki ofbeldismenn. Þeir eiga því ekkert erindi í fangelsi. Ekki frekar en vandræðaunglingurinn sem fer í fangelsi vegna óþekktar en útskrifast sem forhertur glæpon.

Eva | 6:40 | Varanleg slóð |

 

TJÁSUR

Ég var einmitt að hugsa um þetta í gær þegar ég heyrði fréttirnar af þessum handtökum. Flott að láta þessa glæpona finna til tevatnsins en ég held að fangelsisvist sé algjörlega óviðeigandi sem refsing. Heldur þætti mér við hæfi að þessir menn yrðu dæmdir í þrældóm til lífstíðar. Með þrældómi á ég við heiðarlegt starf sem er illa borgað og bíður ekki upp á miklar frístundir. Bara svona eins og venjulegt verkafólk þarf að vinna. Og auðvitað myndi fylgja með hörð skattheimta af öllum tekjum…bara til að borga uppí skuldina við þjóðina.

Posted by: Ása | 7.05.2010 | 8:58:26

Varla er auðveldara fyrir þá að stunda ólöleg viðskipti í fangelsi en utan!

Posted by: Sigrún | 7.05.2010 | 10:04:09

mikið til í þessum pælingum, en mín skoðun er að verulega þurfi að efla Betrunnarvistar möguleikann og er þá helst að vísa í bertrunnarlega einstaklinga, það var sorglegt að hlusta á núverandi Ríkislögreglustjóra er hann var Fanngelsismálastjóri lýsa því yfir óhikað að „fangelsi væri til að refsa en ekki betra“ það er sorglegt og ómannlegt viðhorf, enda af þeim sem „detta inn“ fyrir tvítugt eiga 90% örugga endurkomu í fangelsi ! það er sjúkt þegar svo er og greinilegt að mikið er að í refsiúræðum okkar ! en „siðblindu er ekki hægt að lækna“ ! er það ? ekki þekki ég þá meðferð, en Siðblinda er skilgreind sem Geðsjúkdómur ! svo á þá að vista Hreiðar (ef greindur með siðblindu) í ótímabundnu úræði að Sogni ? ekki getur við ætlast til að hann „læknist að sjálfu sér“ ef hann gegur til vinnu við heimilishjálp á vegum Félagsþjónustunnar, eða ef hann skúrar í Hagkaup ! þar sem einmitt eitt af einkennum siðblindunnar er endurtekninng á endurteknigu ofan hvað siðferðis-brot varðar ! væri ekki skást að dæma hann ótímabundið til vistar á Sogni með meðferðaúræðum til nokkura ára, og endurmeta þá hæfni hans til samskifta við annað fólk án þess að valda því skaða ?

Posted by: Gretar Eir | 7.05.2010 | 13:05:37

Það gengi náttúrulega ekki upp að hafa þá lausa nema taka af þeim réttinn til að stunda viðskipti. Þeir kæmust í kringum það með því að stunda viðskipti erlendis svo það þyrfti líka að svipta þá fjárræði.

Posted by: Eva | 7.05.2010 | 15:05:07

 

Rekinn!

Haukur er mikil félagsvera og þótt hann hafi strax tekið þá afstöðu að líta á dóminn sem launað frí til menntunar og ritstarfa í þágu Saving Iceland, og þótt hann hafi notið þeirra forréttinda að fá að valsa eftirlitslaust um borgina var hann samt feginn þegar honum var sagt að hann yrði fluttur á Skólavörðustíginn þann 13. ágúst. Halda áfram að lesa

Inn vil ek!

Þegar Byltingin mætti til afplánunar inn í Hverfisstein, stundvíslega kl. 13 þann 6. ágúst, munaði litlu að hann þyrfti að brjóta sér leið inn. Engin kannaðist við að eiga von á honum og hann var m.a.s. beðinn að leggja fram boðun í afplánun til sönnunnar. Það vildi svo vel til að hann var með boðunina með sér, svo hann losnaði til að fremja glæp á staðnum til að fá inngöngu. Halda áfram að lesa

Jafnir fyrir lögum?

brekkusöngurÉg er meira en hneyksluð. Ég er sár. Sumarið 2000 vann ég sem fangavörður á Litla-Hrauni í sumarafleysingum. Ég man að einn fanganna fékk dagsleyfi til að fara á fæðingadeildina og taka á móti barninu sínu enda þótt hann hefði ekki setið inni í þetta ár sem er skilyrði þess að menn fái dagsleyfi. Honum var gerð rækileg grein fyrir því að þetta væri alger undanþága og mikil forréttindi. Annar fékk nokkurra klst. leyfi til að vera við jarðarför. Einn fékk ekki einu sinni leyfi til að fara í fylgd fangavarða til að heimsækja gröf eina vinar síns, jarðarför kom ekki til álita þar sem hann frétti ekki af dauða hans fyrr en búið var að jarða hann. Halda áfram að lesa