Saga handa marbendli

Einu sinni var marbendill einn hláturmildur. Marbendill þessi var ákaflega höfuðstór eins og títt er um marbendla. Taldi hann sjálfur að höfuðstærð hans væri til marks um óvenjulegt innsæi og þóttist hann jafnan kunna skil á þeim kátlegu hvötum sem lágu að baki flestum mannanna gjörðum. Þótti honum fádæma fyndið þegar hann sá kokkála fagna eiginkonum sínum, bændur sparka í hunda sem hlupu gjammandi á eftir bílum þeirra og ferðamenn bölva féþúfum þegar þeir hnutu um þær af tilviljun. Halda áfram að lesa

Saga handa Anonymusi

Einu sinni var lítið lýðræðisríki sem hét Afþvíbaraborg. Í Afþvíbaraborg giltu lög og reglur eins og í öðrum lýðræðisríkjum. Afar sanngjörn lög og fullkomin. Ein greinin í lögum um rétt manna til atvinnu, kvað t.d. á um að menn mættu byggja ljótar og illalyktandi síldarbræðsluverksmiðjur í almenningsgörðum, ef þá langaði í nýjan fjallajeppa. Í lögum um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna sagði að menn mættu beita maka sína „líkamlegum hvatningaraðgerðum innan hóflegra marka“ ef þeir leggðu ekki nógu mikið til heimilisins. Svona var nú réttarfarið fullkomið í Afþvíbaraborg. Allt skráð í bókina með milligreinum, reglugerðum og öllu. Halda áfram að lesa

Veisla

Hún kunni illa við kirkjugarða. Hún óttaðist ekki anda hinna framliðnu og því síður taldi hún líkur á að hún raskaði grafarró þeirra. Ekki angraði hugmyndin um návist guðdómsins hana heldur enda taldi hún víst að sá hégómaspengill héldi sig fremur meðal þeirra sem ennþá væru í aðstöðu til að tilbiðja hann. Halda áfram að lesa

Sprungur

Hversu lengi hef ég setið og starað á vegginn í stofunni? Ég veit það upp á mínútu en þær mínútur hafa liðið hægar en mínútur gera almennt. Það er svosem ekki mikið að sjá á þessum vegg, nema þá sprunguna eftir jarðskjálftann í fyrra. Hún hefur stækkað og gliðnað og nýjar sprungur og grynnri liggja út frá henni. Breiðast líkt örtstækkandi kógulóarvef frá miðjunni, yfir vegginn allan, allt niður að gólfi og uppundir loft. Merkilegt að veggurinn skyldi fyrst springa í miðjunni. Rétt eins himininn hafi þrýst á móti þegar jörðin tók að titra undir fótum mínum. Hversu langt ætli sé þar til veggurinn hreinlega gefur sig og hrynur yfir stofuna mína? Halda áfram að lesa

Sagan af drengnum sem fyllti æðar mínar af endorfíni

Ég sá hann fyrst á regnvotum vormorgni. Gróðurilmurinn var svo sterkur að ég ákvað að nota ekki ilmvatn til að móðga ekki náttúruna. Það væri nefnilega eins og að mæta sem gestur í brúðkaup, í kjól sem líkist brúðarkjól og svoleiðis gerir maður ekki. Það var líka logn svo regnið streymdi beint niður og það gerist nú ekki á hverjum degi í henni Reykjavík. Þú skilur auðvitað að við slíkar aðstæður vaxa óskablóm. Halda áfram að lesa