Einu sinni var marbendill einn hláturmildur. Marbendill þessi var ákaflega höfuðstór eins og títt er um marbendla. Taldi hann sjálfur að höfuðstærð hans væri til marks um óvenjulegt innsæi og þóttist hann jafnan kunna skil á þeim kátlegu hvötum sem lágu að baki flestum mannanna gjörðum. Þótti honum fádæma fyndið þegar hann sá kokkála fagna eiginkonum sínum, bændur sparka í hunda sem hlupu gjammandi á eftir bílum þeirra og ferðamenn bölva féþúfum þegar þeir hnutu um þær af tilviljun.
Dag nokkurn flækti marbendill sig í neti bónda nokkurs er Björn hét. Þótti honum bóndi nokkuð þungbrýnn og bauðst til að koma með honum í land og finna honum tækifæri til að breyta lífi sínu til fyndnari vegar. Þá bóndi það, nokkuð dræmlega þó, þar eð hann taldi sífellt fliss ekki endilega vera til marks um raunverulega hamingju. Marbendill settist því upp í bíl bónda og þeir óku heim að landareign hans.
Þegar þeir voru að renna í hlað sá marbendill að hundspott nokkurt kom hlaupandi í mót bílnum og gjammaði mjög. Hljóp hann geltandi við hlið bílsins síðasta spottann að bænum og gerði tilraun til að glefsa í hjólbarðana. Þegar Björn bóndi stöðvaði bílinn og steig út flaðraði hundurinn upp um hann en Björn bandaði honum frá sér með skömmum. Þá hló marbendill en bóndi var jafn þungbrýndur sem fyrr.
Bóndi kom nú heim að búi sínu og var kona hans enn ekki risin úr rekkju. Háttaði Björn bóndi sig og lagðist hjá henni en saup hveljur og kippti til leggjum og ályktaði marbendill að kona hans hlyti að vera fótköld í meira lagi. Engu að síður fagnaði bóndi henni ástúðlega. Mikinn hlátur setti að marbendli. Bóndi spurði einskis en varð þess stuttu síðar var að köttur lá í bóli hans til fóta. Gældi hann þá við köttinn við mikinn fögnuð marbendils en reis svo á fætur og klæddi sig á ný.
Bóndi vildi nú sýna gesti sínum jörðina og gengu þeir út. Þeir voru ekki fyrri komnir út fyrir dyrnar en Björn bóndi hnaut um þúfu á hlaðinu og bölvaði henni hástöfum. Enn hló marbendill og furðaði hann sig mjög á því að Björn hefði enn ekki spurt um ástæðurnar fyrir kæti hans.
Marbendill dvaldi nú hjá Birni bónda fram á kvöld en fýsti þá aftur til sjávar. Bóndi fylgdi honum niður í fjöruna og spurði hvort hann hefði nokkuð séð er verða mætti til að gæða líf hans meiri kátínu en fyrr.
-Helst þá það að þú látir af heimsku þinni, svaraði marbendill.
-Hvur er sú heimska? spurði bóndi.
-Sú var fyrst heimska þín að klappa bæði konu þinni fótkaldri og ketti þeim er vermir ból þitt, svaraði marbendill. Þá hló bóndi.
-Heimsku máttu kalla það en vel hef ég valið. Kötturinn mun fyrr eða síðar fara sínar eigin leiðir þar eð allir staðir eru honum jafnkærir og heitar hendur tekur hann fram yfir kalda fætur konu minnar. Konan mun hinsvegar seint yfirgefa þann sem þolir fótkulda hennar á vetrarnóttum.
Enn hló þó marbendill.
-Vera má að nokkuð sé til í því en meiri varð þó heimska þín er þú flæmdir frá þér hundinn sem ver býli þitt og fagnar þér í hvert sinn er hann sér þig, sagði marbendill
-Ekki gæta þeir hundar mín best er hæst gjamma, svaraði Björn. Hundspott þetta glefsar upp á hvern þann bíl sem rennir í hlað og gerir engan greinarmun á mínum eigin bíl og annarra. Lítt gleður það mig þótt hann flaðri upp um mig með forugar lappir og runki sér á fæti mínum komi hann því við. Og ætli þjófur sér að brjótast inn í hús mitt að nóttu og ræna mig, þarf hann ekki annað en að henda kjötbita í hundinn og mun hann þá fagna honum jafn ákaflega og mér sjálfum þótt aldrei hafi hann vanhaldinn verið í mínum húsum.
Marbendil setti hljóðan en rak þó upp hrossahlátur einu sinni enn.
-Vera má að lítið sé gagn af hundum en mest varð heimska þín þegar þú bölvaðir þinni eigin féþúfu, sagði marbendill og veltist um af hlátri.
-Full er þúfa fjár og þó mun bölvun á henni hvíla, svaraði Björn. Marga þekki ég er mokað hafa fé úr slíkum þúfum en þó fleiri sem hnotið hafa um þær í græðgi sinni og hálsbrotnað. Lítt gagnast þeim fullt hlað af féþúfum sem sökum fötlunar eru bundnir við jörð sína æ síðan.
Þá gekk marbendill til sjávar og hló ekki meir.