-Hvað er að? spurði Bjartur.
-Ekki spyrja nema vera viss um að þú viljir heyra svarið, sagði ég drungalegum róm.
Einhverntíma hefði það nú líklega dugað til að hræða karlmann frá því að spyrja nánar en af einhverjum ástæðum, sem ég ekki skil, er Bjartur ekkert voðalega hræddur við mig. Sem er náttúrulega ekki nógu gott. Nema oftast. Ekki í svona tilfelli samt.
-Ég er að spyrja af því að ég vil vita það, sagði hann. Og ég vil líka vita af hverju þú vilt ekki segja mér það.
-Af því að það eru engar líkur á að þú skiljir mig. Ekki einu sinni fólk sem ég á eitthvað sameiginlegt skilur það, þannig að ég get ekki vænst þess af þér.
-Ekki meðan ég veit ekki hvað kom fyrir þig nei. Geturðu ekki bara tjáð þig? sagði hann.
-Það kom ekkert fyrir. Mér finnst ég bara vera algjör lúser, sagði ég og vissi að ég var að gera mistök.
-Hvaða vitleysa, byrjaði hann, þú hefur nú….
Og ég, sem er mun vanari rökræðum en hann og á auðvelt með að sannfæra sjálfa mig, rökstuddu við ömurleik minn en þó of meðvituð um hann til að geta ýtt honum út af borðinu eins og hver annar glaður aumingi. Vesalings Bjartur. Hann átti engan séns í mig enda var ég svosem búin að vara hann við.
-Jæja, samkvæmt þessari skilgreiningu eru nú margir lúserarnir. Finnst þér ég þá ekki líka vera lúser? sagði hann og vottaði fyrir gremju í röddinni.
-Finnst ÞÉR þú vera lúser? sagði ég.
-Stundum. Viðurkenndi hann. Finnst ekki öllum það stundum?
-Nú þá þarftu ekkert að spyrja mig. Þú ert það sem þér finnst þú vera og það eina sem ég get gert í því er að standa með þér þegar þú ákveður að breyta því.
Og allt í einu rann upp fyrir mér hvað ég er eiginlega að gera hér í þessum útnárahundsrassi með manni sem þekkir mig ekkert sérlega vel og skilur mig ekki heldur.
Þegar allt kemur til alls þarf maður ekki endilega að skilja fólk til að geta staðið með því. Ef þér finnst þú ómögulegur, þá getur enginn breytt þeirri skoðun nema þú sjálfur. Það er hinsvegar ótrúlega auðvelt að staðfesta hana. Það þarf svo lítið til að skilaboðin ‘neinei, þú ert ekkert lúser á öllum sviðum, bara svona pínulítið eins og Ástþór Magnússon’ skíni í gegn.
Málið er að Bjartur hefur aldrei gefið mér slíka staðfestingu. Það er líklega eina ástæðan fyrir því að ég er hér.