Kisurnar mínar

Norna fæddist um mánaðamótin júní-júlí. Hún var kolsvört, hvæsti strax á öðrum degi og varð snarvitlaus þegar naggrísaungarnir voru lagðir á spena hjá mömmu hennar en þeir misstu mömmu sína fljótlega eftir fæðingu, litlu skinnin. Rebba, mamma Nornu missti reyndar mjólkina skömmu síðar svo Norna var fóðruð með pela og það var hreint ekki létt verk, því hún beit og klóraði í hvert sinn sem hún var tekin upp.

Anja er ekki systir Nornu en er fædd um svipað leyti. Mamma hennar var villiköttur og Anja vinkona Hullu bjargaði henni úr klóm hunds, sem var þá þegar búinn að drepa systkini hennar. Anja kom með hana til Hullu ca 6 vikna gamla. Litla Anja hafði aldrei umgengist fólk og var nýbúin að ganga í gegnum þessi hroðalegu áföll, horfa á systkini sín étin og vera hætt komin sjálf, en hún varð strax hænd að mannskepnunni.

Norna og Anja eru mjög ólíkar og hafa hvor sinn sjarma. Norna er mjög smá, fallega vaxin og glæsileg í útliti. Augun í henni eru sérstök, gul með grænum hring inní. Hún fæddist kolsvört en nú er komin falleg brún slikja á hana. Maður sér það samt ekki nema í góðri birtu. Hulla gaf henni nafn og sagði að hún væri svo lík mér, ofvirk og alltaf með klærnar úti.

Anja er meira svona krútt. Hún er hvít og svört með bleikan nebba og hefur sérstakt lag á að gera sig sakleysislega. Hún er ofurlítið stærri en Norna. Hún klórar aldrei eða bítur fólk en aumingja húsgögnin mín og blómin bera þess merki að hún hefur bæði tennur og klær. Anja lærði strax að ksskss merkir að hún eigi að fá að éta en þegar ég urra á hana fyrir að rífa í sófann eða naga blómin mín, setur hún upp heimskusvip og þykist ekkert skilja.

Norna er alfa. Hún er óhlýðin, lipur, áræðin, algjör veiðikló og vill engar gælur nema á sínum eigin forsendum. Hún kemur helst til mín þegar ég er grafkyrr. Hún malar, nuddar trýninu utan í hendurnar á mér nokkrum sinnum og bítur mig svo laust. Eftir smástund má ég svo klappa henni og klóra en bara stutta stund og ef ég á frumkvæðið er hún strax rokin burt. Ef ég skamma hana lítur hún á mig með fyrirlitningarsvip og ólíkt Önju sem á það til að athuga hvort ég er að fylgjast með henni áður en hún gerir eitthvað sem mér mislíkar, hikar hún ekki við að ögra mér.

Fram að 5 mánaða aldri smakkaði Norna á bókstaflega öllu sem ætt er. Hún stakk trýninu ofan í kaffibollann minn og rauðvínsglasið og svolgraði, fitjaði svo upp á trýnið og hryllti sig. Hún beit í tómata og m.a.s. appelsínu, sleikti drakúlabrjóstsykur og einu sinni náði ég naumlega að stoppa hana áður en hún át panodil töflu en mér skilst að það sé banvænt fyrir ketti. Hún smakkaði það sama yfirleitt bara einu sinni, nema rauðvínið, hún tékkaði á því allavega þrisvar ef ekki oftar.

Norna er mikil svaðilkisa. Hún kemur inn með fugl, ekki sjaldnar en tvisvar í viku. (Bjartur vill að ég setji bjöllu á hana en ég gæti ekki hugsað mér að ganga með bjöllu dinglandi um hálsinn sjálf, enda þótt ég finni enga hvöt hjá mér til að veiða, svo ég vil það ekki.) Hún klifrar hátt upp í tré, stríðir hundinum í næsta húsi, fer upp á elliheimili og reynir að sníkja mat og eltir mig þegar ég fer út í búð.

Anja er allt önnur týpa. Hún verður smeyk ef maður skammar hana og ég hef aldrei vitað annan eins kelikött. Hún vill helst hvergi vera nema malandi alveg uppi í andlitinu á mér. Hún vill fá að þæfa hárið á mér og sleikja mig í framan og það fælir hana ekkert frá þótt ég beri á mig andlitskrem. Ég hef boðið henni höndina eða öxlina í staðinn en hún vill bara sleikja á mér andlitið. Hún veit að ég vil það ekki en stundum reynir hún að rétt pota tungunni í mig þegar hún heldur að ég taki ekki eftir því og hún á það til að vekja mig með því á næturnar.

Anja er klaufakisa. Hún horfir á Nornu stökkva fimlega af skáp yfir í bókahillu og reynir að líkja eftir henni, en dettur iðulega. Hún fer aldrei langt frá húsinu og ég hef aldrei séð hana klifra upp í tré. Hún heldur sig mest heima og leiðist greinilega. Hún grenjar á mat þótt hún sé ekkert svöng og ég held að það séu bara viðbrögð við leiðindum. Norna er að vísu fljót til þegar eitthvað ætt er í sjónmáli (eða þefmáli) en hún vælir aldrei. Anja hefur aldrei veitt fugl en þegar Norna hefur gert það, kemur Anja oft inn með eina fjöður eða tvær í kjaftinum. Í gær hélt ég reyndar að hún hefði veitt fugl því ég kom að henni bókstaflega urrandi (eins og Norna þegar hún hefur veitt) með eitthvað í klónum, í rúminu mínu af öllum stöðum. Það reyndist vera grútskítugt rúnstykki. Ég býst við að nágrannakonan hafi hent því út fyrir fuglana.

Ég efast um að Anja hefði orðið langlíf sem villiköttur. Hugsanlega skiptir það einhverju máli að hún missti mömmu sína svona ung en þegar maður ber þessa tvo ketti saman er erfitt að trúa því að umhverfi skipti einhverjum sköpum um það hvernig karakter þróast.

Best er að deila með því að afrita slóðina